139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir þessi mál miklu betur en ég, a.m.k. hernaðarhliðina. Hún vísaði til skýrslu sem hún sjálf gerði á vegum þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins. Ég hef lesið þá skýrslu, hún er mjög góð, og ég hvet alla þingmenn til þess að gera það líka.

Mati hv. þingmanns á mismunandi afstöðu Norðmanna og Kanada, þeim blæbrigðamun sem þar er, er ég algjörlega sammála. Ég hef upplifað þessar tvær þjóðir með nákvæmlega sama hætti. Mér þykir mjög forvitnilegt að heyra það sem hv. þingmaður í reynd hefur hér, í armslengd, eftir Harper, forsætisráðherra Kanada. Mér finnst þær upplýsingar merkilegar. Ég hef ekki fengið slíkar upplýsingar úr samtölum við kollega hans en heldur ekki fengið neinar staðfestingar á því að áform séu uppi um slíka fundi. Og það sem hv. þingmaður segir um tilfinningu sína fyrir Dönum er nákvæmlega sama tilfinning og ég hef.

Ég held samt sem áður — þó að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður segir, hún taldi hérna upp margvísleg atriði sem hægt er að segja að styðji það að ákveðin hernaðaruppbygging eigi sér stað á norðurslóðum, það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég taldi reyndar að þeir þrír ísbrjótar sem Kanadamenn hafa, ég held þeir séu komnir með a.m.k. einhverja þeirra í hendur, mætti líka fella undir þetta. Öll þessi atriði benda til þess að þarna eigi sér stað ákveðin hernaðaruppbygging en eigi að síður ekki af þeim toga að hægt sé að tala um einhvers konar spennu á þessu svæði. Ég er þeirrar skoðunar af því að ég tel að Rússar haldi í reynd í greip sinni möguleikunum á því að gera þetta svæði að fyrirmynd um sameiginlega hagsmuni, um frið og öryggi. Ég les allt sem Rússar hafa verið að gera síðustu tvö missirin með þeim hætti að þeir vilji gera allt sem þeir geta til þess að draga úr spennu á norðurhveli af því að þeir vilja heldur stilla upp með Vesturlöndum gegn því sem þeir meta sameiginlega ógn.