139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég brást fyrst og fremst við því viðhorfi sem mér fannst koma fram í andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur við ræðu utanríkisráðherra að við ættum að vara okkur á því að fara fram með þetta mál þegar við værum jafnframt í viðræðum við Evrópusambandið. Rétt eins og að við legðum fram málið hér og nú eingöngu vegna þess að Alþingi hefði ákveðið að fara í viðræður við Evrópusambandið. Ég lít alls ekki svo á. Algerlega burt séð frá umsókn um Evrópusambandið tel ég málið afar þýðingarmikið fyrir okkur. Um það þarf að fjalla á Alþingi, burt séð frá því hvort við eigum í viðræðum við Evrópusambandið. Það var þetta sem ég lagði áherslu á og kallaði eftir að við skildum hér á milli.

Málefni norðurslóða er þýðingarmikið hagsmunamál fyrir Ísland. Það kann vel að vera rétt og er ábyggilega rétt að við þurfum að halda vöku okkar í viðræðum við Evrópusambandið hvað þennan málaflokk snertir. Við eigum að sjálfsögðu ekki að láta þetta órætt og óunnið þótt við séum í viðræðum við Evrópusambandið. Við eigum að hafa þetta mál uppi. Það var það sem ég lagði áherslu á því ég skildi ummæli hv. þingmanns þannig. Hafi ég misskilið þingmanninn þykir mér það leitt, þá verður það leiðrétt, en þetta var sá skilningur sem ég lagði í orð þingmannsins og þess vegna brást ég við eins og ég gerði.