139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna þessari þingsályktunartillögu um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Ég tel mjög mikilvægt að þingið ræði hagsmunamál okkar á norðurslóðum, og að við reynum að ná sameiginlegri niðurstöðu um forgangsröðun í því sambandi. Við höfum unnið að þessum málum í langan tíma og fyrri utanríkisráðherrar hafa lagt mikla áherslu á málefni norðurslóða. Það má því segja að hæstv. utanríkisráðherra sé að vinna áfram í þeim anda. En ég fagna því að við tökum þannig á málum að um er að ræða sérstaka þingsályktunartillögu. Umræðan sópast þá ekki bara inn í almenna yfirferð um utanríkismál heldur tökum við alveg sérstaka umræðu um þetta mál í þingsályktunartillögu og mörkum stefnu. Ef þetta plagg fer í gegn á þessum nótum, eða kannski í eitthvað örlítið breyttu formi, þá getum við fylkt okkur á bak við þessa stefnu, unnið að framgangi hennar og kannski verið einbeittari í því en áður. Þingið er þá samábyrgt hvað varðar verk hæstv. utanríkisráðherra í framhaldinu.

Í fyrstu línu í þingsályktunartillögunni kemur fram að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftirfarandi meginstefnu í málefnum norðurslóða eftir. Ef hæstv. utanríkisráðherra tekur til máls í lokin aftur gæti verið ágætt að heyra hvernig það samráð er hugsað, hvort þetta er samráð við utanríkisnefnd sérstaklega eða hvort þetta er samráð í formi reglulegrar skýrslugjafar eða hvernig þetta samráð á að vera í framhaldinu.

Tilgreindir eru 11 liðir sem eru meginuppistaðan í þingsályktunartillögunni, þ.e. að hverju eigi að stefna og svo eru þeir tilgreindir betur í greinargerð og ágætlega útskýrðir þar.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þessi stefnumótun hefði verið eitthvað öðruvísi hefði Framsóknarflokkurinn verið með utanríkisráðuneytið í sínum höndum. Ég er ekki viss um það. Ég held að allir flokkar eigi að geta fylkt sér á bak við þessa stefnu. Hún er almenns eðlis í stórum dráttum en þarna eru að mínu mati skynsamleg áhersluatriði. Sum liggja algerlega í augum uppi og önnur eru kannski ekki eins augljós. En þegar maður fer að hugsa málið og skoða okkar hagsmuni þá kemst maður að sömu niðurstöðu og hæstv. utanríkisráðherra hefur komist að, þ.e. að þetta séu þeir meginpunktar sem vinna eigi að. Ég sé ekki að þetta eigi að verða neitt ágreiningsatriði. Þetta er okkar stefna, ég ítreka það, þetta er stefna Íslands, þetta er ekki stefna annarra ríkja eða ríkjasambanda, þetta er stefnan okkar. Það er útgangspunkturinn og maður sér það þegar maður fer að lesa þetta skjal að þetta er okkar stefna.

Það er mjög réttmætt sem kemur fram í skjalinu að sem norðurskautsríki og stofnaðili að Norðurskautsráðinu — það er mikilvægt að undirstrika að við erum stofnaðili að Norðurskautsráðinu sem er það fyrirbæri sem á að hafa áhrif á þessu svæði — eigum við gríðarmikilla hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Lega landsins undirstrikar það og aðgangur að náttúruauðlindum á svæðinu hefur mótað okkar hagsmuni. Það skiptir þess vegna máli að þverpólitísk sátt verði um þessa stefnu. Það er líka undirstrikað hér að það er mikilvægt að Íslandi — ég kom aðeins inn á það í andsvari mínu áðan, virðulegi forseti — verði skipað í hóp þeirra ríkja sem mest áhrif hafa á framtíðarþróun á svæðinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við sitjum við þetta borð og höfum áhrif á framtíðarstefnu norðurslóða.

Það er því brýnt að fara í tvo fyrstu liðina af þessum 11. Þeir eru dregnir þar inn fremst og fyrst, 1. liður og 2. liður, þ.e. að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins og að efla skilning á því að norðurslóðir ná bæði yfir norðurskautið og þann hluta af Norður-Atlantshafinu sem er nátengdur því. Ekki á að einblína á einhver þröng viðmið í því sambandi. Ég sá einhvers staðar í skjalinu önnur viðmið eins og trjálína, hitastig í júlí, minnir mig, eða júní, 10°, og svo heimskautsbaugurinn. Við þurfum að koma því þannig fyrir að þeim fimm ríkjum sem gert hafa tilraun til að ýta öðrum frá, einangra okkur frá samstarfinu, takist það ekki. Það er gríðarlega mikilvægt að við sitjum við þetta borð þannig að þar sitji ekki einungis Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noregur og Danmörk fyrir hönd Grænlands. Það má ekki verða, virðulegur forseti. Ég er ánægð með þau svör sem hæstv. utanríkisráðherra gaf í því sambandi áðan.

Komið er inn á mörg mikilvæg atriði í skjalinu. Ég vil nefna sóknarfæri sem ég held að við eigum að nýta okkur. Þau koma t.d. fram í 9. lið, við getum byggt upp tækifæri varðandi viðskiptasamband ríkja á norðurslóðum. Ég vil minnast sérstaklega á svokallað Stokkmann-svæði sem er í Rússlandi, gríðarlega mikilvægt olíuvinnslusvæði sem verður hugsanlega nýtt. Norðmenn hafa lagt mikla áherslu á að byggja upp trúverðuga og öfluga stefnu gagnvart olíuvinnslu í norðri, m.a. hvað varðar Stokkmann-svæðinu. Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, hefur lagt áherslu á þetta. Norðmenn hafa sett upp sérstaka ráðherranefnd sem vakir yfir þessum málum á norðurslóðum varðandi olíuvinnslu. Ég held að við eigum að reyna að blanda okkur svolítið inn í það og nýta þau tækifæri sem gefast. Ef farið verður í mikla olíuvinnslu á svæðinu er ljóst að þarna verður talsverð uppbygging og ég held að við höfum sérþekkingu á norðurslóðum sem gæti nýst í því sambandi.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga í tengslum við þessi mál að við eigum ekki bara að hugsa um gróða í þessu sambandi heldur líka um siðfræðileg málefni. Ég nefni hina félagslegu gjá sem er á milli ríkja á norðurslóðum, sérstaklega á milli vestursins og austursins. Það er mikil félagsleg gjá á milli hinna vestrænu ríkja og svo Rússlands, lífslíkur ótrúlega lágar í Rússlandi, berklar eru að breiðast út o.s.frv. Með því að efla samstarf á norðurslóðum eigum við ekki bara að líta á þrönga hagsmuni okkar heldur líka siðferðisleg málefni, að minnka þá félagslegu gjá sem er þarna á milli.

Það er sérstaklega tilgreint að við eigum að hafa meira samstarf við Grænland og Færeyjar og ég tek undir það. Í 9. lið er hugmynd um að stofna viðskiptaráð norðurslóða. Ég tel að það geti verið ágætt fyrir okkur að heyra hvað hæstv. utanríkisráðherra hefur að segja um það varðandi Grænlendinga og hinn svokallaða Hoyvíkur-samninga sem þeir vildu ekki vera með í á sínum tíma, óttuðust að Ísland mundi gína yfir ýmsu á Grænlandi. Það var kannski á tímum útrásarvíkinganna, ég skal ekki segja, sem sá ótti var til staðar en við gerðum mjög góðan samning við Færeyinga, Hoyvíkur-samninginn, og það væri akkur í því ef Grænlendingar kæmu til liðs við þann samning líka.

Að lokum vil ég minnast á tvö atriði í viðbót og það eru tækifærin í ferðamennsku á norðurslóðum. Ég vil undirstrika þá sérstöðu sem Ísland hefur og reyndar Grænland líka. En 42% af Íslandi eru ósnortin víðerni, þetta er ótrúlega há tala. Ósnortin víðerni eru landsvæði 25 ferkílómetrar eða stærri þar sem alla vega eru 5 kílómetrar í næsta manngerða umhverfi, byggingu eða rafmagnslínu eða hvað sem það nú er. Þetta er gríðarleg sérstaða og þetta er eitthvað sem ég held að verði eftirsóknarverðara í framtíðinni fyrir ferðaþjónustuna og ferðamenn.

Ekki er hægt að koma upp í ræðustól án þess að minnast aðeins á hlutverk Akureyrar í þessu sambandi. Það er rétt, sem hér kom fram, að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, í félagi við flesta þingmenn í Norðausturkjördæmi, fékk samþykkta þingsályktunartillögu um að haldin verði árleg ráðstefna um málefni heimskautasvæðanna á Akureyri í samvinnu utanríkisráðuneytis og umhverfisráðuneytis og í tengslum við Háskólann á Akureyri. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Einnig er komið inn á það að við eigum að byggja upp meiri þekkingu og helst að einhvers konar miðstöð norðurslóða verði hér á Íslandi. Mér finnst koma til greina að ræða það sérstaklega í tengslum við aðild okkar að ESB, hvort menn geti séð þetta í víðu samhengi í þeim viðræðum.