139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir prýðilega ræðu. Hún sagði að sennilega hefði þessi stefna ekkert litið öðruvísi út ef hún hefði verið skrifuð af þingmönnum Framsóknarflokksins og ég er sammála henni um það. Þá ber þess að geta að ég sagði einu sinni við genginn leiðtoga Framsóknarflokksins að líkast til mundum við báðir deyja í sama flokki. En það er önnur saga og kemur ekki endilega þessu við.

Eitt af því sem gleður mig í umræðunni í dag er þessi samhljómur um meginþættina í norðurslóðastefnunni. Það var ekkert sjálfgefið. Ég bjóst alveg eins við því að aðrir tónar yrðu slegnir af sumum þingflokkum varðandi t.d. öryggismálin. Ég rifja svo upp það sem hv. þingmaður man örugglega eftir því það gerðist eftir að hún tók sæti á hinu háa Alþingi. Þá var dregið í efa að það væri réttlætanlegt að Íslendingar verðu fjármunum og tíma til að sinna norðurskautssvæðinu. Það var gert úr þessum ræðustóli. Ég skildi það svo sem vel á þeim tíma vegna þess að Norðurskautsráðið var þá ungt og ekki alveg ljóst hvernig það mundi þróast. En það hefur þróast vel. Auðvitað hafa verið uppi viðsjár og nefni ég það sem nánast öllum þingmönnum hefur orðið að umræðuefni, þ.e. viðleitni fimm þjóða til að hópa sig saman og bægja öðrum frá samráði, það er auðvitað áhyggjuefni varðandi þróun Norðurskautsráðsins. Það skiptir öllu máli fyrir okkur að reyna að byggja það upp eins og hægt er.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að taka til umræðu eitt af þeim sviðum sem við mögulega gætum unnið saman að í framtíðinni en það er einmitt þessi félagslegi mismunur innan svæða norðursins. Til viðbótar því sem hv. þingmaður sagði þá vildi ég nefna alkóhólisma sem er einmitt sorglega útbreiddur á heimskautasvæðinu.