139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Frá mínum bæjardyrum séð er hinn strategíski tilgangur með þessari tillögu þríþættur: Í fyrsta lagi að verja hina beinhörðu hagsmuni Íslands í næsta nágrenni, í öðru lagi að tryggja áhrif Íslands á norðurslóðunum sjálfum og í þriðja lagi að þétta þann grunn sem við byggjum annan mikilvægan burðarás í okkar stefnu á, þ.e. afstöðu okkar til loftslagsverndunar.

Að því er fyrsta þáttinn varðar skiptir það auðvitað mjög miklu máli hvar við erum landfræðilega í sveit sett. Eins og ég sagði fyrr í dag erum við bókstaflega í útfalli Norður-Íshafsins. Þeir sem muna eftir landafræðinni sem þeir lærðu í menntaskóla og jafnvel í grunnskóla á sínum tíma vita að vestur fyrir ströndum Íslands, í Grænlandssundi, er eins konar Amasonfljót sem er gríðarlegt fljót og streymir undir yfirborðinu með hálfs metra hraða á sekúndu sem er mikill hraði og sá straumur á upptök sín norður í Íshafinu, ekki alls fjarri þeim svæðum þar sem menn hyggja í framtíðinni á vinnslu jarðefna eins og olíu og gass.

Sömuleiðis eru önnur svæði austar í hafinu þar sem við vitum að olíu er að finna. Þar liggur líka straumur niður eftir þannig að hægt er að færa rök að því að engin þjóð hafi jafnmikla hagsmuni og Íslendingar af því að vel takist til um gætilega nýtingu á norðurslóðum.

Annar tilgangurinn sem ég nefndi er sá að Ísland hafi bein áhrif þegar ákvarðanir eru teknar um norðurslóðir varðandi þætti sem geta skipt okkur miklu í framtíðinni, eins og t.d. opnun víðfeðmra flæma þar sem við vitum af miklum og útbreiddum fiskstofnum eins og heimskautaþorskinum sem er fjarskyldur ættingi þess sem við þekkjum úr daglegri neyslu. Við þurfum líka að sporna gegn því að hann verði bráð rányrkju. Við munum að alþjóðleg stórfyrirtæki beindu sjónum sínum að suðurskautssvæðinu og að nágrannar okkar ýmsir ætluðu að hefja þar stórfellda útgerð á lægri stigum fæðukeðjunnar. Hið sama er vilji stórfyrirtækja í alþjóðlegum sjávarútvegi hvað varðar norðurskautið. Við þurfum þess vegna að hafa skýra stefnu til að stemma stigu við rányrkju á alþjóðlegum svæðum.

Í þriðja lagi er það alveg ljóst að við erum í fremstu röð þeirra ríkja í heiminum sem vilja ganga hvað lengst um róttækar aðgerðir til að draga úr loftslagsvánni. Ábyrgur málflutningur okkar um viðkvæmasta svæðið, norðurslóðirnar, og árangursrík þátttaka okkar í samstarfi um það styrkir þann grunn sem við stöndum á þegar við berjumst sem smáþjóð fyrir þeim markmiðum sem eru í eðli sínu alþjóðleg.

Ég er mjög ánægður með þá umræðu sem hefur farið fram í dag. Allir þeir sem hafa tekið til máls hafa lýst ánægju með meginmarkmið tillögunnar. Eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þá var það ekki sjálfgefið í upphafi máls. Eins og þeir sem fylgjast með umræðum um norðurslóðir og alþjóðamál taka eftir hefur tillagan — a.m.k. af minni hálfu frá því að ég kynnti þetta mál fyrst í skýrslu minni til Alþingis um utanríkismál í maí sl. — tekið svolitlum breytingum. Það er eðli málsins. Stefna af þessu tagi hlýtur alltaf að taka breytingum eftir því hvernig aðstæður breytast. Frá því í maí í fyrra hafa aðstæður breyst — það er svo merkilegt — t.d. hefur öryggisstaðan á norðurslóðum breyst til hins betra.

Það sem stendur upp úr í umræðunni er kannski tvennt sem ég vil sérstaklega vekja eftirtekt á. Allir þingflokkar hafa lagt á það mjög stríða áherslu að það gangi ekki að þjóðir sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu reyni með einhverjum hætti að bægja öðrum þjóðum, eins og okkur sem eigum þó land innan norðurheimskautsbaugsins, frá ákvarðanatöku. Hitt atriðið sem mér þykir líka vænt um er að ég tek eftir því að nánast allir þingmenn sem hér hafa rætt hafa tekið upp mannréttindi frumbyggjanna. Það er mjög mikilvægt að þjóð eins og Ísland geri það. Við höfum alltaf látið mannréttindi okkur varða. Við höfum aldrei verið hrædd við að standa upp og láta telja okkur í flokk með þeim. Það er skylda smáþjóðar að verja þá sem smáir eru.

Flestum þeim spurningum sem til mín var beint í dag hef ég svarað í andsvörum. Við höfum mörg rætt nauðsyn þess að hnýta þjóðabönd milli Íslands, Grænlands og Færeyja. Ég er algerlega sammála því. Ég held að í þeirri útrás sem við erum gagnvart alþjóðasamfélaginu, og erum að reyna að styrkja tengsl okkar gagnvart því, t.d. með umsókn að Evrópusambandinu, sé það mjög heppilegt fyrir okkur að treysta ræturnar með því að þétta samstarfið við þessar þjóðir. Við eigum misþunga en þó sameiginlega hagsmuni hvað norðurslóðir varðar.

Ég var eiginlega skotinn niður á flugi í dag af hæstv. forseta þegar ég var að svara fyrirspurn frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem spurði mig út í hvað ég ætti við þegar ég talaði um að heppilegur farvegur fyrir samstarf þríþjóðarinnar sem ég leyfði mér að kalla svo, þ.e. Grænlands, Íslands og Færeyja, væri að vinna saman á orkusviði. Hv. þingmaður spurði mig hvað ég ætti við.

Nú er það svo, eins og ég var byrjaður að greina frá í dag, að þegar ég var iðnaðarráðherra var unnin skýrsla á vegum Orkustofnunar og systurstofnunar í Færeyjum um möguleikana á því að flytja rafmagn frá Íslandi um streng til Færeyja. Nú vita allir að við erum ekki aflögufær um hreina endurnýjanlega raforku og við vitum líka að það er kostnaðarsamt. Ef hins vegar væri um að ræða að flytja orku frá Íslandi, ekki bara til Færeyja heldur alla leið til Evrópu þar sem endurnýjanleg orka er á mjög háu verði, þá mundi það leiða til miklu skaplegri verðlagningar fyrir Færeyinga. Við gætum þá sömuleiðis séð þeim fyrir allri þörf þeirra á endurnýjanlegri orku, hreinni raforku, og dregið úr losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum og hjálpað þeim að verða sjálfbært samfélag á því sviði. Þá komum við aftur að því að við höfum ekki þá orku á Íslandi sem okkur er útbær til að gera þetta. Þó blasir það við að nýr forstjóri þeirrar stofnunar sem fer með orkumál á Íslandi, þ.e. Landsvirkjunar, hefur lýst áhuga á því að leiða streng til Evrópu til þess að geta tekið á móti orku við sérstakar aðstæður en aðallega til að selja á því sem kallað er spottmarkaðir þar.

Það eru líka aðrar leiðir. Á austurströnd Grænlands, þar sem örfáar þúsundir búa í nokkrum samfélögum, er að finna gríðarlegar vatnselfir um alla strönd. Grænlendingar sækja til sjálfstæðis. Forsenda þess er að þeim takist að skapa sér verðmæti til að geta staðið undir þróun sjálfstæðs samfélags á Grænlandi. Ein leið fyrir þá til að skapa auð úr lindum sínum væri að framleiða orku á austurströnd Grænlands úr völdum vatnsföllum þar, flytja um streng til Íslands og um Ísland áfram til Evrópu og hafa þá legg til Færeyja. Það er ákveðin ljóðræn fegurð í því að Grænlendingar í reynd mæti öllum þörfum Færeyinga fyrir hreina endurnýjanlega orku með því að leiða rafmagn til Íslands og síðan áfram til Evrópu. Sömuleiðis gætu þeir haft af því mjög mikil verðmæti því að allir vita að verð á slíkri orku í Evrópu er mjög hátt. Það er kannski fyrst og síðast þetta sem ég átti við þegar ég varpaði þessu fram í ræðu minni í dag og hv. þm. Mörður Árnason, held ég, las það líka upp úr greinargerð.

Þetta eru auðlindir Grænlendinga og ef þeir kjósa að gera þetta þá eigum við heldur að ýta undir það. Fyrir þessu er a.m.k. áhugi í Grænlandi, hér á Íslandi sömuleiðis. Mér finnst rétt að vekja eftirtekt á þessu vegna þess að við kunnum þetta. Þeir eiga lindirnar og það er fyrst og síðast þeirra ákvörðun hvort þeir ráðast í orkuvinnslu af þessu tagi. Hún er alla vega möguleiki sem gæti skapað mjög hagstæða samvinnu þessara þriggja þjóða um eitt af því sem er burðarás þess að mæta orkuþörfum þjóða og gæti þá líka leitt til þess að Færeyingar yrðu sjálfbært samfélag á þessu sviði og að sjálfsögðu gæti dregið úr samsvarandi hættu á losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu.

Að síðustu vil ég, frú forseti, þakka fyrir umræðuna. Ég hef tekið eftir því að það er sammæli hér um flesta meginþættina. Það þykir mér boða gott. Ég held að það sé nauðsynlegt að um stefnu af þessu tagi sé breið samstaða. Hv. þm. Mörður Árnason flutti glæsilega ræðu áðan um það með hvaða hætti utanríkisráðherrar hafa hagað utanríkisstefnu á undanförnum áratugum. Ég legg þessa tillögu ríkisstjórnar fyrir þingið. Þingið getur breytt henni eins og það vill, aukið eða dregið úr vægi t.d. loftslagsnefndarinnar. En þetta er mín tillaga til þingsins og ég þakka hv. þingmönnum fyrir undirtektir þeirra við hana.