139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill einmitt svo til að það er út af því sem ég hef tapað svefni. Löndin sem ganga í Evrópusambandið eru ekki sjálfstæð að því leyti að þau semji við önnur ríki. Þetta uppgötvuðu Kínverjar og slitu viðræðum við Íslendinga af því að þeir sáu engan tilgang í því að ræða við þjóð sem er að ganga inn í Evrópusambandið. Þeir vilja semja beint við Evrópusambandið. Þar eru miklir snillingar sem geta spilað hina stóru refskák á valdatafli heimsins sem ég held að Ísland verði alltaf pínulítið peð á, alveg sama hvað hv. þm. Mörður Árnason segir. Ef þekking Íslendinga á norðurslóðum verður nýtt í utanríkisstefnu Evrópusambandsins eftir að Ísland er gengið þar inn þá er það bara til að nýta þá þekkingu en ekki til að móta einhverja stefnu Evrópusambandsins. Það þykjast þeir eflaust vera fullfærir um, herrarnir í Brussel og víðar í Evrópu.

Mér þykir gott að heyra að menn hafi ekki rætt þetta beint á fundum, að þetta sé í rauninni ekki mál sem er rekið fyrir hönd Evrópusambandsins. En þegar við höfum gengið inn í Evrópusambandið, eins og suma dreymir um, þá verður þetta að sjálfsögðu mál sem Evrópusambandið tekur við vegna þess að utanríkisstefna þess er ein og hún er mótuð sameiginlega þannig að hvert ríki hefur enga sjálfstæða utanríkisstefnu.

Hæstv. utanríkisráðherra verður í miklu verri stöðu eftir það en þeir sem hann talar illa um og segir að hafi verið handbendi og strengjabrúður Bandaríkjamanna. Þá verður honum hreinlega sagt fyrir hvað hann eigi að gera og ef hann fer ekki eftir því er samið fram hjá honum.