139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessa tillögu sem er ekki ný. Eins og þingmaðurinn fór yfir í framsögu sinni er þetta endurflutningur á tillögu eða slegið hefur verið saman tillögum sem voru til umræðu hér í fyrra. Við þekkjum þetta mál, það er ekki verið að ræða það í fyrsta sinn, og ég leyfi mér að efast um að mörg mál eða margar ákvarðanir hafi verið ræddar meira í þessum ræðustól en einmitt þetta mál.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann, þar sem hann leggur hér til að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd um þennan aðdraganda, hvort hann hafi ekki örugglega lesið ágæta grein Vals Ingimundarsonar, „Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991–2007“, sem gefin er út af Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2008, þar sem farið er mjög vandlega yfir þennan aðdraganda og það sem hv. þingmaður óskar eftir að sett verði á fót sérstök rannsóknarnefnd um. Ég tel að ef þingmaðurinn læsi þetta og þær umræður í þingsal sem fóru fram bæði fyrir og eftir þessa ákvörðun mundi það varpa ágætisljósi á það sem hv. þingmaður ætlaði að fá fram með þessari rannsókn og mundi spara tíma og fyrirhöfn við það.

Ég er ekki að gera lítið úr því að við eigum að taka allar ákvarðanir og viðhafa þá stjórnsýslu sem við einsetjum okkur að gera. Við eigum að vanda vinnubrögð. Það getur vel verið að eitthvað í þessu ákvörðunartökuferli hafi verið þannig að það hefði mátt gera betur og það hefur allt verið sagt og allt verið rætt. En mér þótti líka fróðlegt þegar þingmaðurinn fór að tala um að núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir auknu gagnsæi í öllum málum og þá dettur mér strax í hug Vestia-málið sem við höfum verið að ræða hér að undanförnu.