139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að 1. flutningsmaður þessarar tillögu upplýsti að hann hefði ekki lesið þessa ágætu grein og ég ítreka það að hann ætti að gera það vegna þess að hún varpar ljósi á ýmislegt sem mér sýnist hann ætla að fá fram í þessari rannsókn. Annað varðandi þetta mál og þau ummæli hv. þingmanns að það liggi ljóst fyrir að tveir forustumenn í ríkisstjórn tóku þessa ákvörðun er að það hefur legið fyrir um langt skeið. Ólíkt öðrum ákvörðunum sem hafa verið teknar hér mun nær í tíma, og ég nefni Icesave-samninginn, höfðu farið fram miklar umræður um aðdraganda þessarar innrásar hér í þessum ræðustól. Ég minnist umræðna þar sem þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, var sérstaklega spurður hvort hann útilokaði beitingu hervalds — ekki það að Davíð Oddsson ætlaði að fara þarna inn með her, til að það verði ekki misskilið — eða sæi fyrir sér að þarna gæti komið til átaka. Hann svaraði því fyrir fram að það væri ekki hægt að útiloka það vegna þess að þarna væri um að ræða harðstjóra sem beitti þjóð sína ofbeldi og þarna lægju fyrir ýmsar upplýsingar sem gætu leitt til þess að hervaldi yrði beitt. Þetta er ólíkt því sem við höfum rætt hérna margoft. Annar forustumaður, formaður flokks hv. þingmanns, var spurður að því tveimur dögum áður en skrifað var undir samning um Icesave, sem í ljós kemur að formaðurinn hafði ekki þingmeirihluta fyrir, og þá sagði viðkomandi forustumaður í stjórnmálum að ekki stæði til að ljúka því máli.

Ég held að við þurfum að skoða öll þessi mál í samhengi og ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er gráupplagt að við tökum okkur öll saman um það að vanda hér vinnubrögð og viðhafa góða stjórnsýslu. Þá skulum við gera það í einu og öllu en ekki þyrla upp gömlum málum sem hafa verið hér útrædd og allar upplýsingar liggja fyrir um.