139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[18:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar hefur verið flutt og vona að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í gegnum þingið. Það er rétt að mikið hefur verið fjallað um málið en það hefur ekki verið leitt til lykta. Í raun og veru hefur lýðræðið hér sjaldan verið eins fótumtroðið og í kringum þá ákvörðun að setja okkur á lista hinna viljugu og samkvæmt skjölum sem komið hafa úr bandaríska sendiráðinu hér á landi frá þessum tíma er ljóst að þessi stuðningur var skiptimynt fyrir áframhaldandi veru bandaríska hersins hérlendis. Ég held að það hafi einmitt komið fram töluvert mikið af upplýsingum sem hafa staðfest grun margra en ekki hefur verið hægt að fá svart á hvítu í þessum skjölum og það mun auka við dýpri skilning á því hvað átti sér stað við þessa ákvörðunartöku.

Mér finnst líka gríðarlega mikilvægt í ljósi allrar þeirrar umræðu sem hefur farið fram á þinginu eftir hrunið að við lærum af þessu. Eina leiðin til að læra af því er að rannsaka hvað fór úrskeiðis, hvernig það var mögulegt að einungis tveir menn gætu tekið svo stóra ákvörðun á svig við þingið og þjóðina. Meiri hluti þjóðarinnar vildi ekki vera á lista hinna viljugu, rúmlega 90% prósent þjóðarinnar sögðust ekki vilja taka þátt í þessu stríði.

Mér leikur forvitni á að vita — ég sé að á tillögunni eru þingmenn frá öllum flokkum nema einum — hvort það séu virkilega einhverjir þingmenn á Alþingi sem styðja enn þetta skelfilega stríð þar sem ótrúlegur fjöldi óbreyttra borgara hefur verið myrtur, hrikalegir stríðsglæpir hafa komið fram og það virðist ekki vera neinn endir á stríðinu. Ég mundi gjarnan vilja fá svör við því frá þingmönnum hvort þeir styðji virkilega enn þetta stríð.

Enn og aftur fagna ég því að búið sé að setja saman þessar tvær ályktanir. Ég vona að hægt verði að læra af mistökunum og það gerist aldrei aftur að farið verði svona rosalega á svig við það sem við köllum lýðræði.