139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

105. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Flutningsmenn auk mín eru Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Þráinn Bertelsson, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Frumvarpið hefur verið flutt tvisvar áður. Það var fyrst flutt á 137. löggjafarþingi og svo að nýju á 138. löggjafarþingi og er nú lagt fram í þriðja sinn en að nokkru breytt.

Samkvæmt frumvarpinu getur Alþingi ákveðið með þingsályktun að leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram samkvæmt lögum þessum um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Einnig getur að lágmarki 1/3 hluti þingmanna, þ.e. minni hluti þings, krafist þess með þingsályktun að slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram.

Þá geta 10% kosningarbærra manna krafist með undirskrift sinni leynilegrar þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum þessum, verði frumvarpið að lögum, um tiltekið málefni og skal skila undirskriftum til sérstakrar skrifstofu á vegum Alþingis, sem er í frumvarpinu kölluð Lýðræðisstofa. Ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunar skal tilkynna Lýðræðisstofu hvenær undirskriftasöfnun hefst og skila undirskriftum innan 90 daga til Lýðræðisstofu.

Frumvarpið var upprunalega samið með hliðsjón af því að í janúar 2009 kom til stærstu og alvarlegustu mótmæla Íslandssögunnar fyrir utan Alþingishúsið er þúsundir landsmanna kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Engin lögmæt leið var til fyrir almenning til að koma ríkisstjórninni frá og krefjast kosninga og svo er ekki enn. Því brá fólk á það örþrifaráð að trufla störf þingsins. Ekki kom til óeirða eða blóðsúthellinga í það sinn, þökk sé yfirvegun og tillitssemi bæði lögreglu og mótmælenda, en reynslan sýnir þó svo ekki verður um villst að mjótt getur verið á mununum. Og við erum enn þá, tveimur árum eftir hrun, í einhvers konar púðurtunnuástandi og síðast í gær loguðu eldar á Austurvelli. Þar sem stjórnskipanin gerir ekki ráð fyrir öðru en að forsætisráðherra hverju sinni sé sá eini sem getur rofið þing, þá er einboðið að slík staða sem kom upp í janúar 2009 getur hæglega komið upp á ný. Brýnt er því að til séu úrræði í íslenskri löggjöf sem geta fært þingrofsvaldið á fleiri hendur en eins manns og geta komið í veg fyrir ofbeldi sem maður sér eiginlega glitta í þótt það sem betur fer hafi ekki orðið enn þá.

Um árabil hefur verið uppi hávær krafa um aukna aðkomu almennings að mikilvægum ákvörðunum sem varða alla þjóðina, framtíð hennar og lífsafkomu um jafnvel áratugi. Slíkar ákvarðanir hafa hingað til verið algerlega í flokkspólitískum farvegi á Alþingi og taka jafnvel mið af sjónarmiðum fámennra en fjársterkra sérhagsmunahópa. Þróun í átt til veikara þingræðis gagnvart framkvæmdarvaldinu undanfarna tvo áratugi hefur einnig gert það að verkum að valdaframsal frá almenningi til þingsins á fjögurra ára fresti hefur að mati margra verið gróflega misnotað. Því er nauðsynlegt að til komi úrræði er veitt geti bæði löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu meira aðhald en verið hefur. Horft hefur verið til þess m.a. að í Danmörku getur þriðjungur þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þótt ekki hafi komið til þeirrar kröfu í danska þinginu virðast áhrifin vera þau að löggjöf almennt er síður umdeild. Ég held líka að þetta gefi minni hluta þings meira vægi, því sem er gjarnan kölluð stjórnarandstaða hér á landi og virðist vera eitthvert lögmál að hún eigi að vera afar óþekk og haga sér illa. Ég held að þetta, verði frumvarpið að lögum, muni einnig gera hana ábyrgari í málflutningi sínum vegna þess að hún veit að það verður að taka tillit til hennar.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sjálfsagður réttur almennings til að hafa meiri áhrif á sín mál. Því er brýnt að umhverfi og utanumhald verði ekki á sömu flokkspólitísku nótum og almennar alþingiskosningar með sínum pólitísku kjörstjórnum og talningu samkvæmt kjördæmum. Stofnun Lýðræðisstofu sem lögð er til í frumvarpinu er mikilvægt skref í þá átt að færa þjóðaratkvæðagreiðslur og allt umhverfi þeirra, svo sem samningu spurningarinnar, kynningu á efninu og annað utanumhald, frá þeim flokkastjórnmálum sem hingað til hafa einkennt íslenska stjórnmálaumræðu. Í frumvarpinu er lagt til að Lýðræðisstofa hafi með höndum að kynna viðkomandi mál með hlutlausum hætti fyrir öllum landsmönnum. Stofunni yrði í því efni skylt að setja málið fram með einföldum og auðskildum hætti þar sem allir líklegir kostir þess og gallar eru tilgreindir sem og hugsanlegur fjárhagslegur tilkostnaður eða sparnaður fyrir fjárhag ríkisins og fyrir þjóðarbúið í heild.

Mikilvægt er að hafa í huga að mjög víða eru í gildi einhvers konar takmarkanir um hvaða mál raunhæft og eðlilegt er að útkljá í þjóðaratkvæðagreiðslum. Vel má hugsa sér að fjárlög og skattheimta hvers árs sem og ýmis önnur árleg löggjöf sem sett er árlega til viðhalds daglegum rekstri ríkisins verði undanskilin. Einnig er mikilvægt að almennum hegningarlögum sé ekki hægt að breyta með slíkri einfaldri atkvæðagreiðslu.

Tildrög þessa frumvarps eru þau að hugmyndir Borgarahreyfingarinnar, síðar Hreyfingarinnar, í vinnuhópi forsætisráðherra um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing fengu ekki hljómgrunn í vinnuhópnum. Hreyfingin telur að frumvarp það um þjóðaratkvæðagreiðslur sem vinnuhópurinn skilaði forsætisráðherra, og var lagt fram og samþykkt sem lög frá Alþingi, sé óásættanlegt þar sem í því er einungis kveðið á um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna en ekki heimildir til að krefjast þeirra. Í samræmi við það var lögð til breyting á heiti frumvarpsins í meðförum allsherjarnefndar svo að heitið varð lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvægari lýðræðinu en svo að þeim megi eingöngu beita fyrir atbeina þess pólitíska meiri hluta Alþingis sem situr hverju sinni eða forseta Íslands, líkt og verið hefur. Flutningsmenn telja enn ríka þörf á að leggja frumvarpið fram enda endurspeglar það kröfu almennings um aukið lýðræði, kröfuna um að almenningur á Íslandi geti haft meira að segja um sín brýnustu hagsmunamál og mikilvægustu mál lands og þjóðar og geti gert það fyrir eigið frumkvæði og fyrir eigin atbeina. Það gera ekki lög er gilda um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, og því er þetta frumvarp lagt fram í þriðja sinn þótt nokkur ákvæði frumvarpsins séu þó samhljóða lögunum.

Mig langar aðeins að segja frá breytingunni sem varð á frumvarpinu núna við þriðju framlagningu þess. Breytingin lýtur að Lýðræðisstofunni sem samkvæmt frumvarpinu nú er í höndum skrifstofustjóra og er aðsetur stofunnar hjá skrifstofu Alþingis en í fyrri frumvörpum var hún hjá umboðsmanni Alþingis. Eftir að hafa skoðað málið og rætt það við umboðsmann Alþingis þótti okkur þetta betra. Ég held að það sé mjög mikil þörf á að þetta mál fái góða umfjöllun í allsherjarnefnd. Reyndar hefur það verið rætt þar og var rætt vel og ítarlega á síðasta þingi og mjög vel í það tekið. Ég vona að það fái framgang í þetta sinn.

Ljóst er að almenningur gerir auknar kröfur um að hafa meira um málin að segja og óviðunandi er að enginn farvegur sé fyrir slíkar óskir og kröfur og óánægju. Síðast í gær veitti forsætisráðherra móttöku tæplega 50 þúsund undirskriftum vegna Magma-málsins. Mjög erfitt er fyrir valdhafa að hunsa 50 þúsund Íslendinga sem leggja nafn sitt við undirskriftasöfnun um ákveðið málefni. En þegar ekki er til neinn farvegur fyrir kröfuna, hvernig setja á spurninguna upp, undir hvað fólk er að rita og hvað má verja löngum tíma í að safna undirskriftum eða hvernig það á að fara fram, er í lagi að gera það á netinu, treystum við því eða viljum við gera það jafnvel í gegnum heimabanka með auðkennislykli? Það er mjög erfitt að taka jafnvel 50 þúsund manna undirskriftalista gildan þegar við höfum engar reglur um hvernig slík undirskriftasöfnun á að fara fram. Eins og er, og með fullri virðingu fyrir þessu góða málefni og góða átaki, vantar okkur löggjöf um vægi þessara mála og við þurfum að búa til ákveðinn farveg þannig að fólk geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna bæði um ákveðin málefni og eins um afsögn ríkisstjórnar.

Ég vil svo vísa í þá góðu umræðu sem varð hér bæði þegar málið var lagt fram í fyrsta sinn og eins í annað sinn.