139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að ég las um það í fjölmiðlum, rétt eins og hv. þingmaður, að fyrir lægi að sækja um styrki til aðlögunar vegna ESB-umsóknarinnar. Þetta hefur verið tekið til umfjöllunar í þingflokki Vinstri grænna. Þar hefur mér verið tjáð að ekki sé búið að sækja um þessa styrki. Ég hef hins vegar heyrt af því að búið sé að sækja um þá eða að samninganefnd sé að undirbúa slíkt. Flokksráð Vinstri grænna hefur ályktað mjög skýrt í þá veruna að ekki eigi að fara fram nein aðlögun og ekki eigi að sækja um nokkra styrki til slíkrar aðlögunar.

Það er fróðlegt að vita það og auðvitað ætti Alþingi að fara í það núna strax að fá það algerlega á hreint hvort verið sé að sækja um slíka styrki. Er verið að sækja um styrki til aðlögunar að Evrópusambandinu á sama tíma og menn tala um að aðlögun eigi ekki að vera í gangi heldur samningaviðræður? Evrópusambandið sjálft talar um að þetta sé aðlögunarferli, þeir embættismenn sem koma hingað tala um það. Króatía er í sambærilegu ferli. Gerðar eru kröfur um að við breytum stjórnsýslu okkar. Spurningar sem berast, og voru til umfjöllunar í Morgunblaðinu í morgun, á visir.is og víðar, sýna það svo ekki verður um villst að um aðlögun er að ræða. Hér er ekki spurt að því hvort við ætlum að innleiða breytta stjórnsýslu á ýmsum sviðum heldur hvenær og slíkt skuli fara fram meðan á samningaferlinu stendur.

Maður hlýtur að spyrja sig að því á hvaða vegferð við erum í þessu máli. Þetta mál er komið í algerar ógöngur, það eru allir í aðlögunarferli nema utanríkisráðherra sjálfur og það verður einfaldlega að taka þetta mál til gagngerrar endurskoðunar.