139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú stendur yfir málsmeðferð fyrir héraðsdómi vegna máls níumenninganna sem komu inn á þingið 8. desember 2008. Ég ætla ekki að ræða um það mál sérstaklega, enda held ég að skoðanir mínar á þeim málatilbúnaði séu öllum ljósar. Það er hægt að lesa ritun á vitnisburði vitna á netinu. Þar hefur mér fundist ýmislegt athyglisvert koma fram og mig langar að biðja forseta þingsins sem er æðsti yfirmaður þessarar stofnunar að upplýsa um tvö atriði.

Fram hefur komið að starfsmaður þingsins hafi afritað og bjargað fjórum mínútum af myndatöku úr öryggismyndavél sem annars hefði glatast en fram hefur komið að á tíu daga fresti ritist yfir öll gögn. Ég spyr forseta þingsins hvaða reglur gildi um afritun gagna úr öryggismyndavélum þingsins. Getur hvaða starfsmaður sem er valið að afrita og geyma einhver ákveðin gögn? Eða hvernig liggur í þessu?

Eins langar mig að spyrja út í svokölluð árásarboð sem voru send til lögreglu. Hvaða reglur gilda um þau? Hvenær eru þau send út og undir hvaða kringumstæðum?