139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við komum upp í röðum, áhugafólk um níumenningana. Ég vil samt hefja mál mitt á að þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir skelegga greiningu á þeim vanda sem steðjar að Flateyri. Það er alveg rétt að það er kvótakerfinu að kenna hvernig komið er.

Mig langar að ræða um réttarhöldin yfir níumenningunum. Það er alveg skelfilegt að fylgjast með þessum réttarhöldum og öllum málatilbúnaði þar. Það er tilviljunarkennt úrtak fólks sem er réttað yfir undir ákæru um hugsanlegt lífstíðarfangelsi fyrir atvik sem samkvæmt vitnisburði hæstv. utanríkisráðherra í réttarhöldunum í morgun var minna eftirtektarvert en oft hefur komið fram úr ræðustól Alþingis. Hann sagði orðrétt að það hefðu oft heyrst meiri læti úr púlti þingsins en á þingpöllum þennan dag. Það eru ótrúlegar ákærur sem hafa verið settar fram gagnvart þessu fólki samkvæmt 100. gr. almennra hegningarlaga, hugsanlega krafa um lífstíðarfangelsi. Þessar ákærur eru settar fram að frumkvæði Alþingis. Í fjölmiðlum erlendis kemur fram að hér sé um að ræða eitthvað í ætt við pólitískar ofsóknir Alþingis gegn mótmælendum.

Mér sem þingmanni finnst óþolandi að Alþingi skuli vera í þessari stöðu og ég legg fram þá kröfu að formenn þingflokka og hæstv. forseti þingsins reyni að koma sér saman um að útskýra stöðu Alþingis í þessu máli. Hvað gerðist, með hvaða hætti urðu þessar ákærur til? Forseti ætti að senda frá sér yfirlýsingu þar sem vanþóknun þingsins er lýst á þessum réttarhöldum því að þau eiga sér enga stoð í neinum raunveruleika, þau eiga sér enga stoð í neinu sem mundi kallast eðlilegt réttarríki, þar sem eðlilegt tjáningarfrelsi á að vera við lýði. Þetta eru réttarhöld gagngert til að reyna að kveða niður (Forseti hringir.) raddir fólksins. Það er óþolandi að við skulum búa við svona umhverfi á Íslandi í dag.