139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Enn virðist vera farin af stað umræða um stofnun svokallaðs atvinnuvegaráðuneytis sem felur það m.a. í sér að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason verður lagður niður í núverandi mynd. Ég velti fyrir mér ástæðunni fyrir því að þessi umræða fer af stað aftur núna. Það hefur komið skýrt fram úr öllum þessum greinum, landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaðinum, að menn sjái sér ekki hag í því að setja þetta allt saman í eitt nýtt ráðuneyti. Þvert á móti eru á þessu ýmsir gallar. Það er líka mjög hæpið að sparnaðurinn af þessu yrði mikill, hugsanlega og líklega töluverður kostnaður til að byrja með og lítil sparnaður til lengri tíma litið.

Ég hef þess vegna áhuga á að heyra hv. þm. Ásmund Einar Daðason gera okkur grein fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og þingmannsins sjálfs að sjálfsögðu, til þessara hugmynda. Á hvaða stig eru þær komnar? Er aftur verið að ræða þetta í fullri alvöru? Hvers vegna þá? Og hvernig mundi hv. þingmaður bregðast við því ef af þessu ætti að verða?