139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur varðandi vanda Flateyrar sem í sjálfu sér speglar vanda sjávarbyggða vítt og breitt um landið, ekki aðeins nú heldur líka á undanförnum missirum. Íbúar þessara svæða eru berskjaldaðir fyrir því að lífsbjörgin eða atvinnumöguleikar þeirra, atvinnuréttindin, geti farið frá þeim á einni nóttu án þess að þeir fái nokkuð um það sagt. Þetta speglast okkur þarna virkilega og sýnir fram á hversu lítið öryggi byggðanna er í þessum meginhagsmunum sínum.

Varðandi hins vegar Flateyri sérstaklega og það sem verið er að gera hafa verið teknar og fullnýttar að mestu þær heimildir sem eru til úthlutunar byggðakvóta. Þær reglur hafa einmitt opnað á það að Flateyri fengi hámark af því sem eitt byggðarlag getur fengið í byggðakvóta sem hefur komið fram í umræðunni áður og fyrr á þessum vetri að eru 300 tonn. Þau voru ekkert bundin við Eyrarodda sem slíkan þannig að þó að Eyraroddi, sem er búinn að vera í vandræðum síðustu tvö, þrjú missirin, fái ekki byggðakvótann eru aðrar útgerðir á staðnum þannig að aðrir bátar og aðrar útgerðir sem hafa möguleika á að nýta sér þessa úthlutun eiga að sjálfsögðu að gera það. Og ég skora á sveitarfélagið sem setur þær reglur sem vinna ber eftir að flýta þeim reglum því að boltinn er hjá því. Þetta er í boði núna (Forseti hringir.) samkvæmt lögum og reglum, það þarf að nýta og ég hvet íbúana til að gera það.