139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[14:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að bera fram þetta mál sem er að mörgu leyti ágætt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði. Undanfarið höfum við liðkað til í skattalöggjöfinni með undanþágum frá virðisaukaskatti, vörugjaldi og hinu og þessu. Mörg tæki eru komin í boxið í sambandi við skattkerfið til að hvetja til þess að fara út í aðra orkugjafa. Mengunin af bifreiðaflotanum á Íslandi er u.þ.b. 800 þús. tonn á ári og aðrar uppsprettur CO2-útblásturs á Íslandi sem við ráðum með góðu móti við eru skipaflotinn, fiskiskipaflotinn sérstaklega, og stóriðjan. Það er ljóst að bifreiðahluti þessa útblásturs er tiltölulega lítill miðað við hina tvo.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um er: Af hverju virðist engin viðleitni vera til þess að reyna að hefta CO2-útblástur hjá fiskiskipaflotanum á Íslandi? Eru einhverjar sérstakar ástæður fyrir því? Af hverju fókuserum við svona mikið á minnstu uppsprettu CO2 á Íslandi?