139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[15:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hæstv. iðnaðarráðherra um að hún líti jákvætt á það að skerpt verði á því í þingsályktunartillögunni að þegar talað er um samgöngur sé líka verið að tala um traktora, fiskiskip og flugvélar þannig að það liggi fyrir.

Þarna eru gífurleg tækifæri. Ég held að við hæstv. ráðherra séum mjög sammála um það, og ég held, í ljósi þess að við erum ekki mjög fjölmenn í þingsalnum, að það sé mikil samstaða um þetta mál í þinginu. Við viljum mjög gjarnan taka upp innlenda orkugjafa sem víðast. Við höfum náttúrlega fyrirmyndina, sem er sá árangur sem við náðum í að nýta jarðhitann og vatnsaflið til að framleiða rafmagn og hita íbúðarhúsnæði og við vitum því hvers konar árangri við getum náð.

Þegar við tölum um þætti eins og ég benti á, landbúnað og sjávarútveg, þá koma um 23% af heildarlosun okkar í gróðurhúsalofttegundum frá þessum tveimur atvinnugreinum. Við vitum að við getum náð árangri þarna. Mesta losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum — þó að félagi minn hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi lýst því yfir að hann hefði áhyggjur af því að stóriðjan erlendis væri að spýja of miklu frá sér — kemur samt sem áður frá landbúnaði á heimsvísu sem menn hafa miklar áhyggjur af, og þar getum við svo sannarlega verið til fyrirmyndar.

Annað sem ég vildi líka mælast til, og það er eitt af því sem ég nefndi líka þegar við ræddum þingsályktunartillögu um samgöngur almennt, samgönguáætlunina, er að setja töluleg markmið inn í ályktunina sjálfa, (Forseti hringir.) að við segjum ekki að við skulum stefna að einhverju eða miða að einhverju heldur setjum bara (Forseti hringir.) töluleg markmið og verum mjög metnaðarfull í því.