139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:20]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Tilefni þess að ráðist er í stofnun þessa sjóðs er brýn nauðsyn á úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum hér á landi. Ferðamönnum hefur fjölgað allverulega á liðnum árum en á árinu 2010 voru erlendir ferðamenn tæplega 500 þúsund auk 74 þúsund farþega sem komu til landsins með skemmtiferðaskipum og ekki má gleyma mjög svo auknum fjölda innlendra ferðamanna sem ferðast um landið.

Virðulegi forseti. Áður en ég held áfram ræðu minni verð ég líka að segja að það hlýtur að vera fagnaðarefni að okkur hafi tekist að halda í horfinu og sjáum meira að segja merkjanlega örlitla fjölgun ferðamanna á síðasta ári þrátt fyrir að við hefðum orðið fyrir áfalli í apríl og maí — í apríl þegar fækkun ferðamanna á milli ára varð 22% og í maí 15% — og það hlýtur að teljast gríðarlega góður árangur. Að stórum hluta má kannski þakka það hröðum viðbrögðum okkar í því að ráðast í markaðssókn þegar við stóðum hvað höllustum fæti hvað varðaði komu ferðamanna hingað til lands. Slíkum markaðssóknum fylgir líka ábyrgð. Því fylgir sú ábyrgð að við þurfum að gæta að náttúrunni sem er auðvitað helsta aðdráttarafl ferðamanna sem hingað koma. Vegna hins aukna álags sem af fjölgun ferðamanna hlýst er nú svo komið að margir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins eru farnir að láta verulega á sjá. Við viljum ekki að slíkt gangi á upplifun ferðamanna sem hingað koma vegna þess að okkar besta auglýsing fyrir ferðamenn framtíðarinnar eru þeir sem hingað hafa komið. Við viljum því gæta þess að upplifun þeirra sé sem best og standi undir væntingum um hreina, fagra og ósnortna íslenska náttúru.

Í frumvarpinu er lagt til að fjármagni úr sjóðnum verði varið til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila og á náttúruverndarsvæðum. Einnig verði fjármagni úr sjóðnum varið til framkvæmda er varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu einkaaðila. Meðal þeirra staða sem talið er mjög brýnt að ráðast í umbætur á eru t.d. Gullfoss, Geysir, Landmannalaugar, friðland að Fjallabaki, Hveravellir, hverir við Námafjall, Grábrókargígar, Látrabjarg, Helgustaðanáma, Stórurð og Dettifoss.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að markaðssókn fylgdi ábyrgð og það skiptir máli að við horfum til þess núna, og þá má kannski vísa í nýja ferðamálaáætlun sem lögð verður fram á þinginu innan skamms þar sem horft verður til þess í allri stefnumörkun og allri sókn í íslenskri ferðaþjónustu að dreifa ferðamönnum betur yfir árið hér á landi. Við þurfum að fara í öfluga vöruþróun á sviði vetrarferðamennsku og markaðssetja þá ferðamennsku sérstaklega. Þegar ég tala um vöruþróun erum við jafnframt að tala um að horfa t.d. til heilsutengdrar ferðaþjónustu og klasastarfsemi sem er að verða til þar, styðja við hana. Við undirrituðum samning um helgina um sögutengda ferðaþjónustu, um uppbyggingu á því sviði og klasastarfsemi. Sömuleiðis erum við aðilar að menningarsamningum þannig að menningarstarfsemi verði efld um landið og það hefur gengið gríðarlega vel. Við leggjum áherslu á þetta til að hafa öfluga vöru sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn utan háannatíma. Einnig þarf að dreifa ferðamönnum betur yfir landið, þ.e. að bæta aðgengi að nýjum perlum, og jafnframt þurfum við að byggja upp við fjölsóttar náttúruperlur mannvirki til að stýra umgengni og vernda náttúruna. Við vinnslu frumvarpsins var einnig horft til þess að brýnt er að tryggja betur öryggi ferðamanna á ýmsum vinsælum ferðamannastöðum. Bæta þarf varúðarmerkingar af ýmsum toga og jafnframt setja upp og viðhalda ýmsum varúðarmannvirkjum, svo sem handriðum, pöllum, stígum og öryggisgirðingum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verður lykilfjármögnunaraðili framkvæmda á ferðamannastöðum og með sjóðnum aukast líka möguleikar á að byggja upp nýja áfangastaði og dreifa þannig ferðamönnum betur um landið í samræmi við áðurnefnda stefnumörkun í ferðamálum. Aukin dreifing ferðamanna er mikilvægur liður í því að minnka álag á vinsælustu ferðamannastaðina en fjölgar á sama tíma atvinnutækifærum í greininni með því að fjölga þeim stöðum sem ferðamenn sækjast eftir að skoða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi heimild til að fjármagna undirbúning og hönnun vegna framkvæmda sem falla undir verksvið sjóðsins en hins vegar verði sjóðnum ekki heimilt að bera rekstrarkostnað mannvirkjanna, náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða. Þá eru framlög til einkaaðila alltaf háð því að um sé að ræða ferðamannastaði sem ávallt séu opnir almenningi án endurgjalds.

Vaxandi skilningur hefur verið á mikilvægi þess að hönnun taki mið af og sé í sátt við náttúrulegt umhverfi svo og á því að í skipulagsvinnu sé tekið tillit til sjónarmiða ferðaþjónustu og umhverfisvitundar. Góð hönnun á aðstöðu og mannvirkjum getur haft mikið aðdráttarafl bæði vegna þeirrar þjónustu sem í boði er og líka fegurðargildis. Með góðri hönnun er átt við marga þætti en í henni felst m.a. sjálfbærni, vinnusparnaður og minni þörf fyrir viðhald en einnig það að með góðri hönnun er hægt að gera mannvirki á ferðamannastöðum þannig úr garði að upplifun af náttúrufegurð verði meiri og jákvæðari.

Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að sjóðurinn fjármagni framkvæmdir svo tryggja megi öryggi ferðamanna, eins og ég nefndi áðan, en öryggisráðstafanir í þágu ferðamanna geta m.a. verið ýmsar merkingar sem eru til þess fallnar að tryggja öryggi sem og kostnaður við uppsetningu öryggisbúnaðar, t.d. eins og handriða og annars slíks. Undir þennan lið getur einnig fallið stígagerð og uppsetning palla þegar skýrt er að um sé að ræða öryggisráðstafanir. Framkvæmdir sem stuðla að verndun náttúru geta t.d. falist í því að girða af viðkvæm svæði, setja upp útsýnispalla sem draga úr ágangi á náttúruna og beina umferð gangandi vegfarenda þannig að náttúra raskist ekki með stígagerð svo dæmi séu tekin.

Framlög til ferðamannastaða í einkaeigu eru eingöngu bundin við verkefni er varða öryggi ferðamanna og/eða náttúru. Þannig eru þau ekki hugsuð sem atvinnurekstrarstyrkir sem teljast landeiganda til tekna og ekki er gert ráð fyrir að í frumvarpinu felist ríkisstyrkir sem eru alltaf tilkynningarskyldir til ESA á grundvelli 61. gr. laga um EES-samninginn. Þar sem frumvarpið felur að hluta til í sér framlög til einkaaðila er engu að síður skylt að tilkynna ESA að málið sé fram komið.

Lagt er til að í stjórn sjóðsins sitji fjórir fulltrúar, tveir tilnefndir af Samtökum ferðaþjónustunnar, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður.

Verkefni stjórnar er að gera tillögur til iðnaðarráðherra um úthlutanir úr sjóðnum. Tillögur stjórnar skulu bæði byggðar á umsóknum og upplýsingum frá hagsmunaaðilum um brýna þörf á úrbótum. Ekki er um eiginlegan samkeppnissjóð að ræða þar sem reiknað er með að stærstur hluti fjármagnsins renni til svæða í opinberri eigu eins og áður segir. Engu að síður verður lagt faglegt mat á þær umsóknir sem inn koma og þeim raðað eftir því.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að varsla sjóðsins og framkvæmd úthlutunar verði verkefni Ferðamálastofu en umhverfismál eru meðal lögbundinna verkefna stofnunarinnar og vinnur hún að samræmingu umhverfis- og fræðslumála og umsjón með uppbyggingu og þróun ferðamannastaða. Þá sinnir Ferðamálastofa styrkveitingum til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum.

Frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða var samið samhliða frumvarpi um farþegagjald og gistináttagjald sem fjármálaráðherra mun mæla fyrir á Alþingi innan skamms. Árlegar tekjur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru ákvarðaðar í fjárlögum en miðað skal við að framlagið endurspegli 60% þeirra 400 milljóna sem ríkissjóður mun hafa af farþegagjaldi og gistináttagjaldi og verður það því eigi minna en 240 millj. kr. sem sjóðurinn hefur árlega til ráðstöfunar þegar þetta er að fullu komið í gildi. Þeim hluta gjaldsins sem ekki rennur í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða mun verða ráðstafað af fjárlögum til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Virðulegi forseti. Hér er um gríðarlega mikilvægt og óumdeilt mál meðal ferðaþjónustunnar að ræða. Ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að ráðast í öfluga uppbyggingu á ferðamannastöðum til að ná þeim markmiðum að dreifa ferðamönnum betur yfir árið og betur yfir landið, að gera bragarbót í öryggismálum og vernda líka þær náttúruperlur sem eru hvað fjölsóttastar. Með samþykkt þessa frumvarps fylgja líka, eins og mörgum öðrum góðum málum, jákvæð hliðaráhrif sem eru þau að það verður heilmikil innspýting inn í geira sem eiga undir högg að sækja þar sem verkefnastaðan er bág, t.d. hjá hönnuðum, arkitektum og öðrum sem starfa í byggingargeiranum.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og umfjöllunar í iðnaðarnefnd.