139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:30]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps. Það hefur lengi verið skoðun mín að greiða þurfi fyrir það tjón sem er að verða á fallegustu náttúruperlum landsins vegna ágengni ferðamanna. Ég fagna þeirri aðferðafræði að það séu þó fyrirtækin sem nýta náttúru landsins í hagnaðarskyni sem greiða þær viðgerðir en ekki landsmenn sem koma til að njóta náttúru síns eigin lands, þeir eiga að sjálfsögðu ekki að þurfa að greiða fyrir það. Að borga aðgangseyri að Þingvöllum er svo fráleit hugmynd að ég er hissa á að hún skuli nokkurn tíma hafa komið upp.

Ég er með tvær spurningar um þetta mál. Þetta vakti miklar vonir hjá mér en svo rak ég augun í þetta sem kemur fram, sem mér finnst vera mikill galli við málið — hér er frumvarp til laga um framkvæmdastjórn ferðamannastaða og í ljós kemur að um 40% af þessu gjaldi munu renna beint í ríkissjóð. Þetta er mikill ágalli á skattheimtu og skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Nefskattur RÚV, sem var mikið talað um á sínum tíma, og átti aldeilis að bæta stöðu Ríkisútvarpsins, rennur í ríkissjóð en ekki til RÚV. Ferðamálagjaldið sem hér um ræðir rennur að stórum hluta, og nærri því helmingshluta, í ríkissjóð en ekki til uppbyggingar ferðamannastaða á Íslandi.

Mig langar að spyrja: Þegar verið er að innheimta sérstakan skatt á fyrirtæki í ferðaþjónustu, og kallað Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, hvernig stendur þá á því að hann rennur í ríkissjóð í stað þess að fara allur beint í þetta brýna verkefni?