139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:34]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það var gott að heyra að ætlunin er að 40% renni til uppbyggingar þjóðgarða, ég hefði viljað sjá það í frumvarpinu. Ég legg áherslu á að það komi skýrt fram að þessir peningar renni til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Ég hefði líka kosið að sjá að allir þessir fjármunir rynnu beint í þannig staði en að Ferðamálastofa, sem í rauninni er einhvers konar regnhlíf fyrir ferðamálafyrirtækin, sæi ekki um að úthluta þeim samkvæmt sínum hugmyndum. Það eru mörg friðlýst svæði hér sem verða aldrei mjög aðgengileg fyrir ferðamenn en þurfa samt að fá fjármagn til að hægt sé að vernda þau. Það er varhugaverð leið að fara ef fjármunum til náttúruverndar er varið á þann veg að hægt sé að selja fleiri ferðamönnum aðgengi að þeim frekar en að verndunarsjónarmið ráði í prinsippinu ferðinni. Ef verndunarsjónarmið ráða ferðinni koma ferðamenn síðar meir. Það er það sem þeir eru að koma til að horfa á og ég legg áherslu á það við meðferð þessa máls að mjög vel sé passað upp á það.

Ég hef oft talað um það sem ferðamannamengun að koma inn í Öskju þessi dægrin og sjá þar 10 eða 15 rútur á bílastæðinu. Það er vegferð sem við verðum að passa okkur á. Það er ekkert gaman að koma að Geysi í dag, hvorki vegna ástands svæðisins né þeirra þúsund manna sem kannski eru þar hverju sinni.