139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það skiptir máli að við gætum að þessum náttúruperlum og til þess er farið í þessa vegferð. Ferðamálastofa er ekki nein samtök þessara fyrirtækja. Ferðamálastofa er leyfisveitandi og eftirlitsaðili með ferðaþjónustunni. Síðan eru fyrirtækin sjálf með sín samtök þannig að Ferðamálastofa er mjög vel til þess bær að hýsa þennan sjóð og fara með framkvæmd hans.

Ég vil líka benda á að síðustu ár hafa umhverfisráðuneytið og stofnanir þess og iðnaðarráðuneytið og stofnanir þess í auknum mæli verið að vinna mjög þétt saman hvað varðar ferðamálin. Við munum halda því áfram og það verður gert í þessu efni líka og í öllum forsendum sem tekið verður tillit til þegar verið er að sækja um verður umhverfissjónarmiða gætt. Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er verndun náttúru og náttúrugæða. Við sem komum að ferðamálum vitum að það er gríðarleg fjárfesting í því fyrir okkur Íslendinga, sú auðlind er ómetanleg. Það tjón sem verður ef við hleypum of mörgum inn á viðkvæmustu svæðin verður ekki bætt, við gerum okkur vel grein fyrir því. Þess vegna er það megináhersla okkar í þessu máli að tryggja að við dreifum ferðamönnum betur yfir landið, dreifum þeim betur yfir árið og förum betur með þá staði sem ferðamenn sækja mest á háannatíma í dag. Það er markmiðið með frumvarpinu, virðulegi forseti, og ég vona að okkur eigi eftir að lánast að samþykkja það sem fyrst þannig að umræddur sjóður geti tekið til starfa sem allra fyrst og uppbyggingin hafist.