139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:38]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega og tek undir síðustu orð hæstv. iðnaðarráðherra um að það verði samþykkt sem allra fyrst. Við höfum horft upp á það á undanförnum tveimur árum að ákveðin vakning hefur orðið meðal Íslendinga í kjölfar kreppunnar. Menn hafa ferðast meira um landið sitt og reynt að kynnast því og náttúru þess betur.

Einnig hefur verið vaxandi ferðamannastraumur til landsins þrátt fyrir þau áföll sem urðu á síðasta vori eins og hæstv. ráðherra nefndi. Það er kannski ekki síst að þakka hvatningarátaki í kjölfar eldgossins sem þótti heppnast nokkuð vel.

Þessi mikli og vaxandi ferðamannastraumur hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Auðvitað skapar þetta okkur mikinn gjaldeyri. Þetta er atvinnuskapandi og eflir þá miklu atvinnugrein sem ferðamannaþjónustan er orðin og það sparar líka gjaldeyri ef landinn er meira á ferð innan lands en utan. En neikvæðu hliðarnar eru, eins og hér hefur verið bent á, átroðningur og jafnvel niðurníðsla á fjölsóttustu stöðunum. Það skapast ekki síst af því að mikill skortur hefur verið á fjármagni til uppbyggingar á nauðsynlegri þjónustu, til uppbyggingar og aðgerða, til verndar viðkvæmri náttúru og jafnvel skortur á fjármunum til að tryggja öryggi ferðamanna eins og dæmin sanna.

Þessa alls má sjá stað í markmiðsgrein þessa frumvarps um framkvæmdasjóð ferðamannastaða og er það vel að þarna skuli eiga, með sérstakri skattlagningu, að afla fjár til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins og kannski ekki síst til að fjölga viðkomustöðum á landinu til að létta álagið. Ég tel þetta mikilvægt skref.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fjalla um fjáröflunina til sjóðsins. Ég reikna með að það mál muni fara til efnahags- og skattanefndar þegar að því kemur en eins og fjáröflunin er lögð upp er hún ekki alveg í samræmi við tillögu nefndarinnar sem lagði tillögur fyrir stjórnvöld síðasta haust. En skýringar á því og umfjöllun mun væntanlega fara fram í þingsal og fyrir efnahags- og skattanefnd.

Þetta er mikilvægt skref og ég leyfi mér að fullyrða að það geti valdið straumhvörfum í uppbyggingu ferðamannaþjónustu og verndun viðkvæmrar náttúru á ferðamannastöðum að fá jafngildi 400 millj. kr. árlega, hvort heldur er af gistináttagjaldi eða farþegagjaldi, sem verður ráðstafað eins og hér er rakið. Sem formaður Þingvallanefndar verð ég að segja að nefndin væntir mjög góðs af þessari stefnumörkun.

Það er talað um að hingað komi 500–600 þúsund ferðamenn á ári og helmingur þeirra leggur leið sína á Þingvelli, 250–300 þúsund manns á ári hverju. Mikilvægi Þingvalla sem ferðamannastaðar mátti sjá á margfrægu myndbandi hvatningarátaksins frá því í fyrra. Það hófst á myndum frá Þingvöllum, því lauk á myndum frá Þingvöllum og í miðjunni voru líka myndir frá Þingvöllum. Verkefnin á Þingvöllum blasa alls staðar við nákvæmlega eins og hér er rakið og fjármunir hafa verið af skornum skammti. Ekki er það þó vegna óvilja eða nísku fjárveitingavaldsins heldur vegna þess hvernig komið er fyrir ríkissjóði. Ég vil taka undir með hv. þm. Þór Saari sem sagði áðan að það væri eðlilegt að þeir sem hingað koma og hagnast á þjónustu við ferðamenn leggi sitt af mörkum til að vernda náttúruna sem er undirstaða þessarar sömu ferðamannaþjónustu.

Ég vænti sem sagt mikils árangurs af þessu. Það er mikilvægt að þessar fjárveitingar renni, eins og hæstv. ráðherra nefndi, til beggja verkefnanna, almennrar uppbyggingar á ferðamannastöðum, þrír fimmtu hlutar, um 240 milljónir á ári, og tveir fimmtu hlutar þá, eða 160 millj. kr. árlega, til friðlýstra svæða, sem eru fjölmörg en samt allt of fá á landinu, og til þjóðgarða sem við eigum.

Ég vil óska hæstv. ráðherra og jafnframt ráðherra umhverfismála til hamingju með þetta frumvarp.