139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:58]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir framsögu hans. Ég er ósammála um margt sem kom fram í máli hans en mig langar að leiðrétta það sem ég tel vera misskilning. Ég fagnaði því ekki sérstaklega að Íslendingar væru undanskildir gistináttagjaldinu heldur fagnaði ég því að ekki yrði rukkað fyrir aðgang að náttúrunni með einhvers konar notendagjöldum.

Varðandi ferðamálagjaldið tel ég mikilvægt að t.d. barnmargar fjölskyldur lendi ekki í þeirri klemmu að þurfa að sleppa því að gista á gististöðum vegna þessa gjalds. Mín skoðun hefur ætíð verið sú að börn og unglingar undir 16 ára aldri í fylgd með foreldrum eigi að fá undanþágu frá þessu gjaldi. Ég hef rekið mig á það á ferðum mínum um landið að sums staðar eru barnmargar fjölskyldur einfaldlega rukkaðar minna fyrir gistiþjónustu vegna þess að mönnum er kunnugt um hvað þetta getur verið dýrt fyrir fjölskylduna. Það áhersluatriði sem ég held að við þurfum að hafa í huga er að börn og unglingar verði undanþegin þessum skatti.

Það eru praktískir agnúar á því sem hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um í sambandi við notendagjöld. Það er ekki hægt að vera með járnhlið og vakt allan sólarhringinn árið um kring á ferðamannastöðum. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á að girða Dimmuborgir, Þingvelli eða Skaftafell af þannig að menn komist ekki inn á staðina fótgangandi nema í gegnum vöktuð hlið. Það er ekki boðlegt að loka þessum stöðum á nóttinni því að við búum við bjartar sumarnætur um fjóra mánuði á ári þegar fólk er líka á ferðinni. Það eru þeir praktísku agnúar á notendagjöldunum sem mörgum eru svo hugstæð og ég fagna innilega að eru ekki í þessu frumvarpi.