139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[16:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert vandamál að hafa börn og unglinga undanþegin því gjaldi sem yrði innheimt á viðkomandi ferðamannastöðum. Það er ekkert vandamál að ekki verði um neina gjaldtöku að ræða fyrir þá sem fara t.d. í skólaferðalagi á þekkta ferðamannastaði. Þetta er fyrst og fremst spurning um þær reglur sem verða settar um þessa innheimtu. Eins og þetta er sett upp í frumvarpinu horfum við upp á að allir þeir hópar sem ferðast innan lands, íþróttafélög, ungt fólk í íþróttum, þurfa að greiða þessi gjöld. Fjölskyldurnar sem ferðast og ætla að gista á einhverjum stöðum þurfa að greiða þessi gjöld. Það verður erfitt að undanskilja einhverja eða hafa eðlilegt eftirlit með því. Það er miklu einfaldara að hafa eftirlit á viðkomandi stöðum.

Það er enginn að tala um að loka ferðamannastöðum um bjartar sumarnætur. Ef ferðamannastraumur er á björtum sumarnóttum verður einfaldlega fólk á vakt. Ég held að það sé full ástæða til þess út frá þeim öryggishagsmunum sem við fjölluðum um að fólk ferðist ekki án þess að eitthvert eftirlit sé með því og það viti af fólki á þessum stöðum og að það sé í lagi með fólkið sem fer þar um á þessum tíma ársins. Það er enginn að tala um járnhlið og vakt allan sólarhringinn og að hefta aðgang eitthvað. Það er hægt að snúa út úr hlutunum og hv. þm. Þór Saari er tamt þegar kemur að sumum málum að fara í slíka útúrsnúninga. Það er ekkert verið að tala um þetta. Auðvitað verða staðirnir opnir allt árið. Það er starfsemi í kringum þekktustu og helstu ferðamannastaðina allt árið. Ég held að það sé bara jákvætt fyrir atvinnuuppbyggingu í ferðaþjónustu. Sjáum við ekki alveg örugglega fyrir okkur á stöðum úti um allt land, eins og í Dimmuborgum, þar sem engin aðstaða er til að veita neina þjónustu að stóran hluta ársins komi þangað (Forseti hringir.) ferðamenn? Með gjaldtöku væri tækifæri til að standa undir þeirri lágmarksþjónustu sem þarf að vera á svona stöðum.