139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar hæstv. utanríkisráðherra kom mér þægilega á óvart því að ég er ekki viss um að við séum að hugsa um sömu ræðuna. Ég veit ekki annað en að ég hafi lýst mikilli ánægju með þær tillögur sem lagðar voru fram, en ég sagði að ég væri ekki endilega samþykkur öllu sem kemur þar fram.

Hins vegar er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að ég gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir of litlar aðgerðir, ekki að hún hefði ekki gert neitt, en þessi ágæta ríkisstjórn hefur nú ekki afrekað miklu.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er hægt að telja upp ákveðna hluti sem hafa gerst, en ætli það sé ekki meira fyrir þrautseigju þeirra sem reka álverið í Straumsvík en ríkisstjórnarinnar sem farið er að stækka það og auka við framleiðslu. Og það er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt að farið sé að virkja í Búðarhálsi. Ég hlýt því að spyrja ráðherrann: Hvaða fleiri virkjanir eru alveg að koma? Okkur vantar svo sannarlega orku fyrir þá aðila sem vilja nýta hana.

Fyrst við erum farin að tala um atvinnumál og slíkt velti ég fyrir mér hvaða aðgerðir eru á döfinni fyrir atvinnulausa og til þess að sporna við því að fólk flytjist úr landi. Mér finnst algerlega vanta atvinnustefnu sem boðar hvað við munum sjá í framtíðinni. Víða um land sjáum við að verið er að segja upp fólki vegna niðurskurðar ríkisstjórnarinnar. Það tengist líka atvinnumálum, hæstv. ráðherra. Ég spái því að ráðherra muni koma hér upp og kenna kvótakerfinu um að einhverju leyti. Þá bendi ég hæstv. ráðherra á að víða um land eru rekin afar öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem skila miklum tekjum í (Forseti hringir.) sjóði ríkisins. Ef ég veit rétt eru útflutningsverðmæti íslensks sjávarfangs (Forseti hringir.) um 200 milljarðar á ári.