139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að menn eiga ekki að vera að karpa um svona mál, það er engin ein leið rétt. Það er sjálfsagt að hafa sem mest og ríkast hlaðborð af hugmyndum. Ég vil að það komi algjörlega skýrt fram að ég hef ekki lagst gegn þeim hugmyndum sem þarna eru. Margar þeirra voru ræddar af stjórnarliðinu, m.a. af mér gagnvart frumflytjanda málsins, hv. þm. og formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Ég held reyndar að mörg þau viðhorf sem er að finna í þessum tillagnabunka hafi ratað inn í úrlausnir ríkisstjórnarinnar. Ég held t.d. að sú leið sem ríkisstjórnin fór gagnvart skuldum heimilanna hafi tekið mið bæði af því sem þarna kemur fram, en líka af þeirri kröfu Framsóknarflokksins að það yrði farið í almennar niðurfellingar. Ég held að sú leið sem farin var sé eins konar blanda af því.

Að öðru leyti var ég ekki að halda því fram að það væri allt komið á beinu brautina í efnahagslífi okkar. En hlutirnir horfa miklu betur við, það er bara staðreynd. Það hafa orðið gagngerar breytingar frá því þessi tillaga var lögð fram snemma þings. Við sjáum það t.d. á verðbólgu. Verðbólgan er á niðurleið. Vextir eru á niðurleið og eiga enn eftir að lækka. Við sjáum sömuleiðis að þó að umhverfið sé erfitt hefur það ekki algjörlega fælt frá erlenda fjárfestingu.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við þurfum erlenda fjárfestingu inn í landið. Magma er eitt dæmi um það. Þar er erlend fjárfesting. Búðarháls — það er fjárfesting með erlendu lánsfjármagni. Fjárfestingin í Straumsvík. Samtals nema þessar tvær fjárfestingar 89 milljörðum. Þetta eru erlendir peningar. Við sjáum tvöföldun á framleiðslugetu Actavis. Þetta eru erlendar fjárfestingar. Það mætti telja upp meira. Við sjáum t.d. þær breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn og (Forseti hringir.) stjórnarliðið sameinaðist um varðandi gagnaver. (Forseti hringir.) Þetta allt saman skiptir máli.