139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf gott að heyra þegar hæstv. utanríkisráðherra nefnir góða sjálfstæðismenn, góða og gegna sjálfstæðismenn, sem leiðtoga lífs hans. Það er merki um að það gæti verið að hann væri á réttri leið. En það er auðvitað ekki þannig, virðulegur forseti, að hér séu auknar fjárfestingar að koma inn í landið. Hvers konar fjarstæða er þetta sem hér er á borð borin? Það er komið þvert á móti pólitískt óþægindaálag sem er reiknað inn í áhættuna þegar fyrirtæki og lánastofnanir eru að veita fjármagn hingað til lands. Það er spurt: Hvenær losnið þið við þessa ríkisstjórn? Það er stóra spurningin miklu frekar en nokkuð annað. Og öll þau verkefni sem hæstv. utanríkisráðherra taldi upp. Ég fagna stækkuninni í Straumsvík. Mér finnst það frábært að Samfylkingin í Hafnarfirði hafi ekki getað eyðilagt álverið í Straumsvík eins og hún lagði upp með.

Hæstv. utanríkisráðherra leggur líka mikið á sig til að fagna gagnaverssamningunum. Hvað tók það langan tíma þangað til þingið greip í taumana og sagði: Hingað og ekki lengra, þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að klára þetta, þess vegna skulum við klára þetta. Mig minnir að það hafi tekið a.m.k. 18 mánuði, ef mig misminnir ekki. Hvar er Helguvík? Er Helguvík komin af stað? Nei, það var í iðnaðarráðuneytistíð hæstv. utanríkisráðherra sem við vorum vongóð um að það mundi fara af stað. Nei, nei — það er ekki enn þá farið af stað. Af hverju skyldi það nú vera?

Ég verð líka að fá að nefna flugverkefnið, ECA, sem ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er meðmæltur. Ég bið hann og skora á hann að taka nú frjálslyndisumræðuna og fjárfestingarhvetjandi umræðuna sem hann flutti áðan við ríkisstjórnarborðið vegna þess að það er þar sem hann þarf að sannfæra fólk.

Svo hvet ég hann, af því ég veit að hann er mikill lestrarmaður og er hættur að blogga á nóttunni og les á nóttunni í staðinn, til að halda áfram að lesa skrif (Forseti hringir.) og ræður merkra sjálfstæðismanna. (Forseti hringir.) Ég held að það geri honum (Forseti hringir.) bara gott.