139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér. Hæstv. fjármálaráðherra veitir afar athyglisverð svör sem eða hitt þó heldur, þegar svona er um að vera í þinginu skorast hann jafnframt undan því að svara. Svo undarlegt er það nú.

Ég kem yfir í lokasvar hans hér í lok míns máls en mig langar til að fara aðeins yfir það. Ég er með fréttatilkynningu undir höndum síðan 21. september á síðasta ári þegar tilkynnt var um væntanleg eigandaskipti á Vestiu þar sem Framtakssjóðurinn á að tryggja kjölfestu fyrir Icelandic Group. Orðrétt segir þar, með leyfi forseta:

„Í kaupunum felast tækifæri fyrir Icelandic Group þar sem aðkoma Framtakssjóðsins tryggir Icelandic Group öflugan bakhjarl. Sérstaða Icelandic Group felst í að tengja saman framleiðslu, markaðssetningu og sölu á sjávarfangi þvert á landamæri sem tryggir félaginu sterka samkeppnisstöðu og mikilvægt forskot til frekari verðmætasköpunar. Með skýru eignarhaldi á félaginu er jafnframt tryggt að stjórnendur geti áfram einbeitt sér að daglegri starfsemi félagsins og við að styrkja undirliggjandi rekstur þess.“

Þarna kemur skýrt fram að um afar verðmætt fyrirtæki er að ræða sem var fært á milli nánast verðmiðalaust. Þarna kemur fram að einungis er verið að tala um sérstaka hluti út úr félaginu sem hæstv. fjármálaráðherra var að vísa í, Triton, og þá skal upplýst hér að bankastjóri nýja Landsbankans sagði frá því á opnum fundi hjá Framsóknarflokknum að það hefði verið óskað eftir því að þetta félag fengi Icelandic Group vegna þess að íslenskir aðilar stæðu að því. Við skulum ekki gleyma því hvar þetta félag er staðsett. Þetta er skúffufyrirtæki á Guernsey, í skattaparadísinni. Það er mjög einkennilegt að þetta skuli ekki fara í opið útboð þar sem (Forseti hringir.) allir Íslendingar sem eiga fyrirtæki gætu þá tekið þátt í útboðinu. Nei, þetta er frekar fært sérstaklega tilgreindum aðilum (Forseti hringir.) sem eru fyrir fram valdir.