139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eitt sinn var hér á Íslandi eitt stærsta fyrirtæki landsins sem hét Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það breytti um nafn eins og tíðkaðist í útrásinni og heitir núna Icelandic. Þetta fyrirtæki er afskaplega verðmætt og selur rjómann af öllum fiski sem Íslendingar framleiða. Nú er svo komið að flest stærri fyrirtæki landsins lentu undir ríkið, undir forsjá hæstv. fjármálaráðherra. Hann stofnaði fyrirtæki sem hét Bankasýslan og hún á svo aftur Landsbankann, Landsbankinn á Vestia og Vestia fór í samkrull við lífeyrissjóðina og framtakssjóð þeirra.

Lífeyrissjóðirnir eru hins vegar skyldusparnaður landsmanna sem þeir hafa afskaplega lítil áhrif á. Þarna er sem sagt einhver sjálfvirkni komin í gang, fólk sem ekki á hagsmuni af því fé sem það fer með (Gripið fram í: Fé án hirðis!) — fé án hirðis, já einmitt, eins og ég skrifaði í grein árið 1994. Þetta er fé án hirðis og þetta fólk á ekki hagsmuna að gæta. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að menn séu á tánum og upplýsi allt, vegna þess að þeir sem eru að höndla með þetta fé þeir eiga það ekki. Það eru sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum, hver fjölskylda á að meðaltali 15 milljónir í lífeyrissjóðunum, hún veit það ekki. Og svo ríkissjóður sem enginn á en við hér á Alþingi eigum að gæta hagsmuna hans. Þetta fé sem enginn á fer þetta fólk með og launin sem það fær er brotabrot af hagsmununum. Hagsmunirnir eru svo miklir, þetta eru svo mikil átök sem þarna eiga sér stað að þetta verður að upplýsa.

Þegar Vestia seldi Parlogis í júlí var þetta upplýst og Lyfjadreifing keypti þetta og allt svoleiðis, það vissi maður. En nú er þetta allt einhvern veginn á huldu vegna þess að hagsmunirnir eru svo gífurlega miklir og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er mjög sterkt fyrirtæki.