139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Viðskiptanefnd bað í síðustu viku fulltrúa Landsbankans um upplýsingar um verðmat einstakra eigna Vestia þegar þær voru seldar og að hluta færðar yfir í Framtakssjóðinn. Þær upplýsingar fengust ekki. Okkur, fulltrúum skattgreiðenda, kemur svo sannarlega við á hvaða verði eignir Vestia fóru frá Landsbankanum. Á síðasta ári lögðu skattgreiðendur Landsbankanum til 122 milljarða í hlutafé og eiga því 81% hlut í honum. Skattgreiðendur tapa þegar mistök eru gerð við verðmat og sölu stórra fyrirtækja sem Landsbankinn hefur yfirtekið vegna mikillar skuldsetningar.

Bankahrunið er dæmi um að eftirlitsstofnanir geta brugðist hrapallega. Nauðsynlegt er því að bæta aðhaldið með miðlun upplýsinga til skattgreiðenda og ekki síst fulltrúa þeirra hér á þingi þannig að þeir geti borið saman verðmat bankans og söluverð Framtakssjóðs þegar sjóðurinn síðan selur þessar eignir. Á grundvelli upplýsinga er hægt að meta hvort stjórnendur Landsbankans standi sig í starfi fyrir skattgreiðendur.

Virðulegi forseti. Við eigum rétt á að vita hvort verið er að selja eignir Landsbankans á brunaútsölu til Framtakssjóðs eða lífeyrissjóðanna. Hlutverk Bankasýslunnar er að gæta hagsmuna skattgreiðenda og það er lítið gagn að Bankasýslunni ef fulltrúar hennar í stjórnum bankanna ætla að skýla sér á bak við þröngar skilgreiningar á hlutverki sínu. Stjórnir gömlu bankanna þóttust einmitt ekkert geta gert þegar eigendur þeirra rændu þá að innan. Tími afskiptaleysisstefnunnar er liðinn. Ég ætlast til að Bankasýslan útvegi viðskiptanefnd umræddar upplýsingar.