139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Málflutningur stjórnvalda í Vestia- og Framtakssjóðsmálinu er einfaldlega ótrúverðugur. Hæstv. fjármálaráðherra er orðinn að einhvers konar pappírs-pésa sem rígheldur sér í reglur, pappíra, lög, óháð því hvort þau nái þeim markmiðum sem við viljum ná, markmiðum um betra samfélag, samfélag þar sem er gagnsæi, jafnræði og sanngirni.

Hæstv. forsætisráðherra virðist einna helst halda að fyrrverandi forsætisráðherra, sem situr nú sem ritstjóri Morgunblaðsins, sitji enn þá í ökumannssætinu. En ráðherrar verða að horfast í augu við það að þeir bera ábyrgð. Það er staðreynd að stjórnvöld hafa búið til þetta kerfi sem leyfir að mínu mati ógeðfellt pukur og leynimakk þannig að jafnvel gerendur í útrásinni fá fyrirgreiðslu umfram aðra landsmenn. Þannig að ég bið núna um að í staðinn fyrir að tala hér og vísa í einhverja pappíra að við sýnum í raun að það er eitthvað að marka yfirlýsta stefnu, yfirlýstar verklagsreglur, um að við viljum hafa hlutina öðruvísi. Setjum lög um einkavæðinguna. Gerum ekki sömu mistök og stjórnmálamenn sem hafa setið hér á undan okkur hafa gert aftur og aftur. Komum á uppboðsmarkaði eins og við framsóknarmenn leggjum til fyrir fyrirtæki og eignir sem bankar taka yfir. Við getum líka sett lög, bæði um lífeyrissjóðina og Framtakssjóðinn, sem tryggja að söluferli eigna þeirra verði gagnsætt og opið.

Ég bara bið hæstv. ráðherra að hætta að slá ryki í augu almennings og horfast í augu við það að hlutirnir eru ekki eins og við viljum hafa þá.