139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn er efnt til umræðu um sölu Landsbankans á Vestiu, dótturfélagi hans, og því miður ekki að ástæðulausu. Það er alveg ljóst að Landsbankinn fór ekki eftir þeim verklagsreglum sem Samtök fjármálafyrirtækja höfðu unnið í samráði við viðskiptanefnd um sölu fyrirtækja sem lent höfðu í eigu bankanna. Það er svo allt annað mál að landsbankamenn útskýrðu vel fyrir viðskiptanefnd í síðustu viku ástæðu þess að þeir seldu Vestia, og má út af fyrir sig vel fallast á að það hafi verið skynsamlegt hjá þeim að selja og lagfæra þar með efnahagsreikning bankans. En það er allt annað mál. Þeir áttu að standa öðruvísi að sölunni. Nú hefur þetta mál undið upp á sig, ef svo má að orði komast, vegna þess að Framtakssjóðurinn, sem keypti Vestia, fer ekki heldur að verklagsreglum þegar hann á nú í samningaviðræðum um sölu á Icelandic Group með þeim afleiðingum að nú er vantraustið og tortryggnin allsráðandi. Það er gífurlega áríðandi fyrir okkur öll, ekki okkur hér á Alþingi heldur okkur fólkið í landinu, að ekki leiki nokkur vafi á því að hvergi sé pottur brotinn í þeim aðferðum sem notaðar eru þegar reynt er að koma fyrirtækjum aftur hvort heldur er í almennings- eða einkaeigu.

Vantraustið í samfélaginu er mikið eftir efnahagsófarirnar og þess vegna verður allt að vera uppi á borðum. Það er engin þolinmæði fyrir því að menn, hversu reyndir, klárir, heiðarlegir og góðviljaðir sem þeir eru, taki ákvarðanir í þessum efnum sem ekki eru uppi á borðum og öllum aðgengilegar. Það er eins komið fyrir okkur öllum sem eigum að standa vörð um hagsmuni almennings, hvort heldur við störfum í bönkum, fyrir lífeyrissjóði, í stjórnsýslunni eða í stjórnmálum. Við hljótum að velta því alvarlega fyrir okkur hér á Alþingi hvaða verkfæri við höfum til að sjá til þess að svo verði nú þegar í ljós er komið að verklagsreglur (Forseti hringir.) Samtaka fjármálaþjónustunnar halda ekki vatni.