139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Alvarlegt mál eða stormur í vatnsglasi, ég velti því fyrir mér. Fyrir mér er aðalatriði þessa máls það sem upplýst var á fundi forsætisnefndar nú rétt fyrir þingbyrjun, að það var ekki farið inn í tölvukerfi Alþingis. Um það eru engin fótspor, engin merki. Það er fyrir mér aðalatriði þessa máls.

Sem þingmaður hér á þessum vinnustað vil ég segja að ég treysti tölvukerfi Alþingis fullkomlega og veit að varnir sem hér eru hafðar uppi eru mjög öflugar. Hvernig þetta mál bar að og hvernig viðbrögð stjórnar þingsins og starfsmanna þingsins voru við því er hins vegar dæmi, því miður, um paranoju og vantraust sem ríkir hér innan dyra. Mér þykir það mjög miður því að það hefur líka endurspeglast í umræðunni í morgun.

Ég á von á því að forseti verði við þeirri beiðni sem fram hefur komið um að gefa þinginu skýrslu þannig að við getum (Forseti hringir.) rætt þetta til hlítar, betur en á þeim stutta tíma sem nú gefst.