139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

sameining ráðuneyta og svör við spurningum ESB.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að sú rýnivinna sem tengist umsókninni að Evrópusambandinu hefur nú verið í fullum gangi og einkum þeir málaflokkar sem lúta að landbúnaði og síðan að sjávarútvegi hafa verið þar fremstir. Ráðuneytið hefur unnið þá vinnu eins vel og nokkur kostur er í samræmi við samþykkt Alþingis í þeim efnum.

Og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að nú er að koma að þeim punkti þar sem verður að fara að setja þau samningsskilyrði eða hvað verður sett sem samningsskilyrði í ferlinu og það þarf þá að fara að koma fram. Það er alveg hárrétt, ég hef greint frá því hver skuli vera ákveðin skilyrði í þeim efnum, t.d. að ekki verði farið í neina aðlögun eða undirbúning eða breytingu á reglu- og lagaverki íslenskrar stjórnsýslu meðan á þessu umsóknarferli stendur, því aðeins að eftir að það hefur verið þá samþykkt eða afgreitt eða hafnað verður ráðist í þær breytingar. Þessi afstaða er líka afstaða þingsins, ég veit það, og (Forseti hringir.) ætti síst að vera ástæða til þess að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í miðju umræðuferlinu.