139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

Icesave og afnám gjaldeyrishafta.

[11:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég var hins vegar að spyrja um gjaldeyrishöftin og afnám þeirra. Ég veit að það liggur fyrir að Seðlabankinn ætlar að kynna áætlun sína í febrúarmánuði en ég er að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessa veru, sérstaklega í ljósi þess að það er gríðarleg áhætta fólgin í því af hálfu Íslands að afnema gjaldeyrishöftin. Nú liggur fyrir samkvæmt gögnum í fjárlaganefnd að Icesave-málið hvílir líka á afnámi gjaldeyrishafta. Ég held að það blasi við að gengið muni falla að einhverju leyti þegar höftunum verður aflétt og það mun þýða gríðarlega mikinn aukinn kostnað í Icesave-málinu.

Ég vil fá skýrari svör frá hæstv. fjármálaráðherra um afnám gjaldeyrishafta og hvort ríkisstjórnin hafi mótað sínar tillögur og hvort ekki sé komið að því að hún geri það.