139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

flokksráðssamþykkt VG um styrki ESB.

[11:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er ég ekki til svara fyrir samskipti utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um þessi efni og það hlýtur hv. þingmaður að skilja, enda spurði hann reyndar ekki beint um það.

Það er alveg ljóst á hvaða grundvallarafstöðu við byggjum í þessum efnum, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, og hefur legið ljóst fyrir alveg frá byrjun. Við lítum á þetta sem umsóknarferli. Við styðjum það ekki að um aðlögun fyrir fram, áður en málið yrði borið undir þjóðina, sé að ræða í þeim skilningi að við förum að breyta lögum og reglum og stofnunum upp á von og óvon fyrir fram og áður en niðurstaða fæst af hálfu þjóðarinnar. Við höfum frá upphafi gengið út frá því að þannig gæti ferlið farið fram og hæstv. utanríkisráðherra hefur sjálfur héðan úr ræðustól á Alþingi lýst því að þannig sé það. Við þurfum hins vegar að undirbúa og hafa klárar áætlanir um það hvernig slíkar breytingar yrðu gerðar ef til aðildar kæmi og síðan yrði tíminn frá og með þjóðaratkvæðagreiðslu og fram að fullgildingu notaður til þeirra breytinga.

Þetta er okkar nálgun og sama gildir um styrkina. Ályktun okkar á flokksráðsfundi í nóvember er alveg skýr. Við teljum ekki að taka eigi við styrkjum sem beinlínis eru til þessa hlutar, þ.e. styrkjum sem er ætlað fyrir fram að kosta breytingar á stofnunum eða lögum eða reglum. Þar drögum við mörkin. Það þýðir ekki að sjálfsögðu að einhverjir styrkir til að þýða skjöl eða stuðningur úr þessu TAIEX-verkefni vegna ráðgafar við samninganefndir komi ekki til greina. Við höfum dregið upp skýra afstöðu til þess hvernig við teljum að fara eigi með þetta mál og hv. þingmaður, þó að ég þakki fyrir velvildina, þarf ekkert sérstaklega að spyrja formann Vinstri grænna að því hvort farið sé að flokkssamþykktum. (Gripið fram í.)