139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

flokksráðssamþykkt VG um styrki ESB.

[11:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli hvað varðar afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu liggur fyrir, er skýr og er óbreytt og sömuleiðis mín afstaða. Ef eitthvað er hef ég á margan hátt sannfærst enn betur um að fleira mæli með því að það þjóni ekki hagsmunum okkar að ganga í Evrópusambandið. Ég bendi á að okkar eigin gjaldmiðill og okkar eigin hagstjórnartæki gagnast okkur vel um þessar mundir til að hafa okkur út úr kreppunni.

Varðandi einstakar samninganefndir þá þekki ég ekki til þess. Það sem ég veit er að þær hafa verið að skilgreina þarfir sínar í sambandi við ráðgjöf og stuðning í viðræðuferlinu til að geta haldið sem best á hagsmunum og málstað Íslands. Það er ljóst að í sumum tilvikum þurfa þær á utanaðkomandi ráðgjöf og stuðningi að halda. Ég hef skilið málið þannig að þá geti komið til greina að stuðningur komi út úr þessu TAIEX-verkefni við starf samninganefndanna sem slíkra þannig að þær verði í sem bestum (Forseti hringir.) færum til að halda á okkar málstað. Hvort einhverjar umsóknir hafa farið áleiðis þekki ég ekki en veit (Forseti hringir.) að þær hafa verið að skilgreina þarfir sínar í þessum efnum.