139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans í annars mikilvægu máli sem er byggt á grundvelli laga sem voru samþykkt, minnir mig, á vormánuðum 2008, jafnréttislaga. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, okkur hefur miðað áfram, og ég held að í rauninni sé ekki mikið upp á lagaverk okkar Íslendinga að klaga og er eitt og annað sem hefur stuðlað að því að við erum núna meðal fremstu þjóða þegar kemur að jafnrétti.

En það er eitt að tala um lagarammann, lög og reglur, og annað að sjá um framkvæmd. Minnug þess að það er rétt um mánuður síðan við kláruðum afgreiðslu fjárlaga þegar lagt var fram fjárlagafrumvarp að þá var algjörlega óumdeilt og kom fram í ræðum bæði stjórnarþingmanna og stjórnarandstæðinga að þær tillögur sem þá voru lagðar fram væru mikil atlaga að konum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Með þeirri jafnréttistillögu sem hann mælir fyrir og áætlun til fjögurra ára, ef hún hefði verið samþykkt, hefði hún komið í veg fyrir þær dómadagstillögur í garð kvenna sem birtust í fjárlagafrumvarpinu? Hefði áætlunin, ef hún hefði verið samþykkt, komið í veg fyrir þær tillögur sem voru í fjárlagafrumvarpinu og voru ákveðin atlaga að konum? Ég vil annars vegar spyrja að því og hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra velferðarmála nú þegar krukkað hefur verið í fæðingarorlofið, sem er að mínu mati eitt það mesta og stærsta skref sem við Íslendingar höfum tekið í þágu jafnréttismála og orðið fyrirmynd annarra ríkja þegar að því kemur — það var umdeilt á sínum tíma, einhverjir voru á móti því, en sem betur fer náði þingheimur þeirri farsælu niðurstöðu að sammælast um málið. Nú er búið að krukka í það a.m.k. þrisvar sinnum. Megum við búast við því að það komi fleiri tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar sem beinast sérstaklega (Forseti hringir.) að Fæðingarorlofssjóðnum?