139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna sérstaklega skilningi og í rauninni velvilja hæstv. velferðarráðherra gagnvart fæðingarorlofinu og ég vona að hann eigi sér bandamenn innan ríkisstjórnar Íslands. Það var ekki þannig síðast en ég vona að við eigum ekki eftir að sjá vanhugsaðar breytingar á fæðingarorlofinu eins og voru settar fram á sínum tíma.

Varðandi hitt, að kynjuð fjárlagagerð eða kynjuð hagstjórn hefði hugsanlega komið í veg fyrir þær tillögur sem beindust sérstaklega eins og ég talaði um áðan að konum, ekki síst á landsbyggðinni, þá er það oft bara spurning um — fyrirgefið, frú forseti, þó að ég sletti — „kommon sens“ í svona máli. Það þarf ekki alltaf greiningartæki til þess að sjá hvað er helsta vinnuafl ríkisins, til að mynda á landsbyggðinni eða innan heilbrigðiskerfisins eða menntakerfisins. Það eru konur að meginhluta. Ef tillögurnar beinast nákvæmlega að þeim geirum munu þær bitna á konum. Það þarf enga sérstaka kynjaða fjárlagagerð til að sjá það.

Ég vil hins vegar hvetja hæstv. velferðarráðherra til dáða í þessu máli. Ég tel að það sé mikilvægt að farið verði gaumgæfilega yfir þá jafnréttisáætlun sem byggir á lögunum frá 2008 þannig að við getum sameinast um það, þingheimur, að stuðla áfram að viðgangi og eflingu jafnréttismála hér á landi.