139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:48]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Pétur H. Blöndal deilum þeirri skoðun að jafnréttismál eru líka efnahagslegt mál og að það er gríðarlega mikilvægt að nýta hæfileika hvers og eins óháð kyni. Það er það verkefni sem við höfum. Mannréttindi eru af sama meiði, allir eiga að fá að njóta réttar síns óháð því hvar þeir búa og hvert kyn þeirra er.

Við sátum báðir, ég og hv. þingmaður, í lagasamningunni á sínum tíma árið 2008. Þá ræddum við þessi mál mikið. Ég verð að biðjast velvirðingar á því að ég get ekki svarað spurningum hans um hvers vegna það er kynbundið starfsval. Það hafa orðið verulegar breytingar í menntageiranum þar sem stúlkur eru orðnar fjölmennar í nánast öllum deildum í framhaldsnámi og skila miklu meiri árangri í skólakerfinu en drengirnir. Hvers vegna? Það verður fátt um svör þó að margar rannsóknir séu til.

Við skoðuðum á þeim tíma hvernig kanna mætti launamuninn og hvernig hægt væri að nálgast það efni. Við ræddum það mjög mikið. Eitt af því sem þar kom fram var að búa til mælitæki til að fylgjast með launamun, þ.e. árangursmælikvarða, og raunar er enn verið að móta þá. Það hefur þvælst svolítið fyrir þeim en sú staðlahugmynd sem þá kom fram, m.a. frá hv. þingmanni, hefur nú komist töluvert áfram og er verið að vinna mjög skipulega að henni. Menn geta því búið til miklu virkari mælitæki til að finna út hvað veldur launamuninum. Það er verkefni sem við höfum í höndum í þessari þingsályktunartillögu og í framkvæmdaáætluninni í framhaldinu, að leita að skýringum og leiðrétta muninn vegna þess að það eru engin rök fyrir honum.

Sama gildir um stjórn fyrirtækja, þegar við samþykktum lögin á sínum tíma ákváðum við að setja ekki lagaskyldu varðandi stjórn fyrirtækja. Við sögðum það mjög skýrt í frumvarpinu að við vildum að því yrði breytt. Við mundum fylgjast með því í ákveðinn tíma og ef breytingar yrðu á því þyrftum við ekki að grípa til laga. (Forseti hringir.) Því miður gerðist það ekki. Þess vegna var gripið til lagaákvæða til að þvinga menn til að fjölga (Forseti hringir.) konum í stjórnum fyrirtækja.