139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get nánast sagt þetta sjálfvirkt en þarf stundum að horfa og sjá hvort karlmaður sé í forsetastól.

Frú forseti. Karllæg sjónarmið eru þá ekki tengd karlmönnum. (Gripið fram í.) Samkvæmt þessu. Það er þá eitthvert kerfi í gangi bæði hjá konum og körlum sem stýrir því ferli sem gerir það að verkum að 98% sjómanna eru karlmenn og 90% kennara í grunnskólum eru konur. Það vill svo til að þær konur sem eru í grunnskólum og leikskólum eru stjórnendur, þær stjórna börnunum og eru þeim þá í raun sú fyrirmynd að stjórnendur séu konur. Þegar börnin fara að velja sér starf gerist það samt ekki. Konur fara ekki í stjórnir fyrirtækja þrátt fyrir að hafa þessar fyrirmyndir þannig að ég held að það sé eitthvað stórlega mikið að. Ég held nefnilega að þetta sé töluvert dýpra en menn vilja vera láta. Það er ekki nóg að breyta lögum, það þarf að breyta viðhorfi — og hvar þarf að breyta viðhorfinu? Í fjölskyldunni og í gegnum fræðslukerfið. Það þarf að breyta viðhorfum í fjölskyldunni, hvernig heimilisstörfum er dreift á fjölskylduna og hver telur sér skylt að vakna þegar börnin gráta á nóttunni. Þetta er atriði. Hver finnur til ábyrgðar gagnvart börnunum? Er það karl eða kona? Getur konan farið á sjóinn og sagt við karlinn: Heyrðu, nú skaltu annast börnin þín, fáðu þér vinnu í leikskóla?