139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar. Mig langar að spyrja hana að tvennu. Annars vegar hvort ekki sé rétt að þessi skýrsla og þessi þingsályktunartillaga um jafnréttisáætlun til fjögurra ára verði send í fleiri nefndir en félags- og tryggingamálanefnd, hvort ekki sé vert að hún fari einfaldlega til allra nefnda og þá hvort félags- og tryggingamálanefnd sendi hana til umsagnar til annarra nefnda. Í mínum huga á ein þingnefnd ekki að fjalla um jafnmikilvægt mál og hér er. Hins vegar kemur fram í þessari skýrslu að jafnréttisfulltrúar eigi að vera starfandi í ráðuneytunum. Þá spyr ég hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur hvort ekki sé ráðlegra að ráðinn sé jafnréttisfulltrúi framkvæmdarvaldsins þannig að áherslur séu eins í öllum ráðuneytum fyrir hönd framkvæmdarvaldsins en ekki mismunandi eftir því hverjir sinna starfinu hverju sinni.