139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals tel ég reyndar að hann sé að byrja á örlítið öfugum enda þótt það sé áhyggjuefni þegar mikil kynjaslagsíða verður hvar sem það er, nema kannski varðandi barnsfæðingar. [Hlátur í þingsal.]

Nú er vandamál að brottfall úr framhaldsskólum er mun meira meðal drengja en stúlkna. Reykjavíkurborg gekk svo langt að fara af stað með sérstaka könnun sem snerist um af hverju drengjum gengi svona illa að fóta sig í grunnskóla í samanburði við stúlkur. Deilt var á þá könnun og sagt: Stúlkum líður ekkert endilega betur í skólanum en drengjum.

Ég veit ekki hvernig á að nálgast þetta. Ég fagnaði þó því framtaki Reykjavíkurborgar að huga að því hvað það er í skólakerfinu sem gerir að verkum að drengir detta frekar út úr því. Það er ljóst að velmegun þjóðarinnar til framtíðar byggir á vel menntuðum einstaklingum og velferð þjóðar felst auðvitað í því að fólk sé sátt við hlutskipti sitt og hafi raunverulegt val í lífinu.

Þar sem ég og hv. þingmaður erum saman í félags- og tryggingamálanefnd getum við staðið að því að senda fyrirspurn til mennta- og menningarmálanefndar og beðið um umsögn um þetta. Það þyrfti þá að skoða sérstaklega skólana, menntamálin og þær gríðarlegu breytingar sem eru að verða þar.

Við skulum líka muna að konur hafa verið hvattar til að mennta sig til að auka möguleika sína á vinnumarkaði og til launa til jafns við karla. Þær hafa augljóslega svarað því kalli. Það er mjög jákvætt.