139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki alveg ánægður með þetta innihaldsrýra svar, ég verð að segja það. Það er greinilegt að menn hafa ekki hugsað þetta. Ég er svo jafnréttissinnaður að ég vil nýta alla einstaklinga hvort sem það eru karlar eða konur. Þetta segir mér að við nýtum ekki karlmenn til menntunar. Við nýtum ekki þá hæfileika sem þeir hafa og alveg sérstaklega ef það stafar af brottfalli, þ.e. ef þeir vildu fara menntaveginn en gerðu það ekki af einhverjum ástæðum, þá erum við að vannýta þá auðlind þjóðarinnar sem karlmenn sem hefðu getað menntað sig eru. Ég held að við þurfum að vera miklu meira vakandi yfir þessu og einblína ekki bara á laka stöðu kvenna og gleyma því að það geta verið aðrir hópar sem geta verið í lakri stöðu og þeim er ekki sinnt bara af því að þeir eru karlmenn.