139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er feginn að heyra að þessi misskilningur hefur verið leiðréttur hvort sem hann var mín megin eða hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Auðvitað velur enginn að fara í láglaunastarf en hins vegar eru borguð lægri laun í stéttum sem konur velja sér. Ég held að það sé mikilvægt að skoða þetta og getur verið áhugaverð þjóðfélagsleg og félagsleg vangavelta. Það má velta því fyrir sér hvort þetta hafi til að mynda með meiri persónustyrk kvenna að gera. Þær horfa ekki bara til launanna þegar þær velja sér starf eins og maður gæti ætlað að karlar gerðu úr því að laun í „hefðbundnum“ kvennagreinum eru lægri. Er það vegna þess að konur láta sig frekar starfið varða en launin? Lýsir þetta meiri persónustyrk kvenna, þ.e. að velja sér frekar störf sem þær langar að vinna en að þær langi í launin sem starfinu fylgja?