139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára og vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram sem hefur verið bæði áheyrileg, fróðleg og góð. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að benda á við fyrri umræðu um tillögu hæstv. velferðarráðherra og án þess að ég sé að ætlast til þess að hæstv. ráðherra svari því nú þegar vildi ég frekar koma þessu hér á framfæri. Ég sit í hv. félags- og tryggingamálanefnd og er léttur leikur að koma sömu sjónarmiðum á framfæri þar í nefndinni en ég vil þó hafa sagt það hér við fyrri umræðu.

Fyrst um form málsins og efnistök vil ég eins og fleiri lýsa ánægju minni með að jafnréttisáætlunin, sú sem hér liggur fyrir, skuli vera gerð með nýstárlegum hætti og að efni hennar sé þemaskipt og sett þannig fram, finnst mér, með miklu læsilegri og skýrari hætti en áður hefur verið. Ég tel að það verði til þess að auðveldara verði að ná markmiðum hennar, auðveldara verði að ná utan um hana, og þar með eigi að vera auðveldara að ná markmiðum hennar. Þó að margar áætlanir hafi, ekki bara á sviði jafnréttismála heldur líka á öðrum sviðum, verið lagðar fram tekst mönnum ekki alltaf, framkvæmdarvaldi eða löggjafarvaldi, að ná þeim markmiðum sem þeir setja sér. Ég held þó að margt bendi til þess að nú séu meiri líkur til þess en áður að það takist af augljósum ástæðum sem ég þarf ekki að tíunda hér.

Mig langar til að benda á vegna B-liðar á bls. 3 í þingskjalinu, frú forseti, þar sem rætt er um vinnumarkað og kynbundinn launamun, auk þess sem hér er tekið fram, að þar verði líka hugað að ráðningarfyrirkomulagi hjá hinu opinbera. Ég held að eitt af því sem skýrir tölfræðina um fjölda karla og fjölda kvenna, þ.e. um meiri fjölda karla í stjórnunarstöðum og millistjórnunarstöðum hjá ríkinu, sé m.a. sagan eða arfleifðin, þ.e. að það er mikill fjöldi karla sem hefur setið í starfi sínu ekki bara árum heldur áratugum saman. Hluti af því að eðlileg framþróun verði og eðlileg umskipti í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera er að það sé „rótasjón“, ef ég má svo að orði komast, í æðstu stöðum. Að mínu viti ætti hver forstöðumaður eða forstjóri ekki að sitja lengur í starfi sínu en í samtals tíu ár, tvisvar sinnum fimm ára ráðningartíma til dæmis. Það ætti hins vegar ekki að útiloka að sá hinn sami eða sú hin sama gæti síðan farið í aðra stöðu í annarri stofnun eða annars staðar hjá hinu opinbera.

Ég hef áður bent á þetta í samhengi við breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins og ráðningarmál þar. Mér finnst mikilvægt að hafa þetta í huga af því að augljóst er að þarna er fyrirstaðan vegna þess að fjöldi sérmenntaðra kvenna hjá hinu opinbera hefur aukist sem betur fer í réttu hlutfalli við vel menntaðar, háskólamenntaðar konur í vinnu hjá hinu opinbera, en síðan komast þær sömu konur upp að þessu glerþaki sem þar er og komast ekki í stjórnunarstöðurnar. Ég held að það sé m.a. vegna þess að ekki sé nóg endurnýjun á efstu stöðum hjá hinu opinbera. Á þetta vildi ég benda í fyrsta lagi.

Í öðru lagi um atriði er varðar samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs þá tel ég að nú sé lag, eins og ég veit að fleiri í þessum sal segja líka, að stytta vinnuviku Íslendinga, bæði karla og kvenna. Þegar meðalvinnuvika karla og kvenna á Íslandi er á bilinu 42–47 klukkustundir er alveg augljóst hvað það er sem gefur eftir. Það er hin hlið lífsins sem er fjölskyldulífið. Við þurfum á einhvern hátt — kannski verður það rætt í komandi kjarasamningum af aðilum vinnumarkaðarins, ég veit það ekki, vonandi — að gera heiðarlega tilraun til þess að stytta vinnuviku Íslendinga. Ég held að sú stytting þurfi ekki og eigi ekki að koma niður á hvorki framleiðni, ef maður notar þann mælikvarða, né gæðum og í raun því sem vinnan skilar. Ég held að það sé bara spurning um betra skipulag eins og þar stendur. Ég vildi gjarnan benda á þetta í þessu sambandi.

Ég vil lýsa ánægju minni með að Lánatryggingasjóður kvenna verði endurvakinn eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni. Og svo ég vaði beinlínis úr einu í annað er það umfjöllunin um kynbundið ofbeldi sem ég vildi sérstaklega beina sjónum að. Hér hefur nokkuð verið rætt um orðanotkun og hugtakanotkun. Það er alveg rétt að umræða um jafnréttismál og kvenfrelsi, femínisma, hefur auðvitað tekið breytingum í áranna og áratuganna rás og þar er eðli málsins samkvæmt notast við ýmis ný eða nýstárleg hugtök. Ég hugsa að margur maðurinn sé ekki endilega með það á hreinu hvað t.d. kyngervi þýðir, sem er íslenska þýðingin á „gender“ en hefur sérstaka akademíska þýðingu og er notað sem slíkt og ratar inn í pólitíkina úr akademíunni. Það er gott að skilja það en það er kannski ekki alltaf gott að nota það í almennri umræðu um málin. Það er líka gott að venja sig á að tala bara mannamál um þennan málaflokk eins og aðra.

Ég ætla að leyfa mér að segja, af því að nú er aðeins rætt um kynbundið ofbeldi eða það orð er notað í þessari áætlun eins og er víðar í umfjöllun um jafnréttismál af hálfu hins opinbera og fleiri, að mér finnst kynbundið ofbeldi eða orðið kynbundið, þó að ég viti nákvæmlega hvað það þýðir, þá segir það kannski ekki alla söguna. Stundum erum við að búa til orð sem fela það sem við erum að tala um. Við erum að tala um ofbeldi karla gegn konum í 99% tilvika líklega. Af hverju tölum við þá ekki um ofbeldi karla gegn konum og börnum? Það er það sem við erum að tala um. Mér finnst við líka mega ræða það eins og það er þó að sjálfsögðu sé hægt að nota hina lýsinguna líka.

Í því sambandi megum við heldur ekki gleyma ofbeldi í samfélagi — hvernig verður það til, hvað endurspeglar það? Ég hygg að það endurspegli aðallega tvennt, þ.e. þann aðbúnað sem börn búa við í uppvexti sínum eða réttara sagt hvort börn hafi verið vanrækt eða ekki, og það endurspeglar líka valdahlutföllin í samfélaginu og sýnir okkur kannski miklu betur en öll löggjöfin og allar reglugerðirnar eða önnur tölfræði hvert er hið raunverulega valdahlutfall kynjanna og ólíkra hópa í samfélaginu af því að það er líka þannig að ekki eru allar konur eins. Við vitum t.d. að ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna er miklu meira en ofbeldi gegn konum sem eru fæddar og uppaldar á Íslandi. Við þurfum að skilja hlutina í því samhengi.

Mér finnst mikilvægt að benda á það í þessari umræðu, af því að hér hefur mikið verið rætt um orðanotkun og hugtök og auðvitað líka um baráttuna gegn ofbeldi, að kannski er sá hluti jafnréttisbaráttunnar besti spegillinn á það hvar við stöndum raunverulega sem jafnréttissamfélag með tilliti til jafnréttis kynjanna og með tilliti til stöðu ólíkra hópa, bæði af ólíkum uppruna, fatlaðra, ófatlaðra og svo fram eftir götunum í samfélaginu sem við viljum kenna við jafnrétti og stefnum að sjálfsögðu að.

Ég sé, frú forseti, að tími minn er á þrotum en ég vildi koma þessu á framfæri í þessari stuttu ræðu.