139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn sem hér hafa stigið í ræðustól þakka fyrir þá skýrslu sem flutt var af forseta varðandi þessi mál. Það er kannski að einhverju leyti að bera í bakkafullan lækinn að halda áfram þessari umræðu enda er hún farin að endurtaka sig, en ég held að það sé mjög mikilvægt að forseti fundi frekar með forsætisnefnd og þingflokksformönnum og geri áætlanir um frekari rannsókn. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lýst furðu sinni á vinnubrögðum lögreglu því að þegar í ljós kemur að sönnunargagnið, tölvan, er án fingrafara og í henni eru engar upplýsingar sem geta leitt þá neitt þá er mjög einkennilegt að leita ekki til mögulegra vitna að málinu eða það væri áhugavert að vita af hverju ekki var talin þörf á vitnaleiðslum eða rannsókn með því að ræða við þá sem þarna voru á ferðinni. Síðan vil ég taka fram, af því að við þingmenn eigum öll erindi í þetta hús þegar við förum á nefndarfundi, að það er gríðarlegt mál að komast inn í húsið og við stöndum þarna reglubundið á milli glerhurða hálfföst til að reyna að komast inn eða út. (Gripið fram í.) Hér bendir einn hv. þingmaður á að glerhurðin hafi ekki verið komin. En þarna eru myndavélar og fylgst er með því hverjir koma inn í húsið og þá er kannski áhugavert að vita hvort upptökur séu til þannig að vitað sé hverjir voru þarna á ferðinni og hvenær eða hvort þær séu eingöngu til þess að hindra á líðandi stundu óviðkomandi aðila að húsinu. Maður fer að hugsa um allan þann tíma sem eytt er í öryggismál, sem sagt að komast fram hjá ýmsum hindrunum inn í vistarverur (Forseti hringir.) þingsins og hvort þær séu kannski óþarfar.