139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Eins og fleiri vil ég þakka hæstv. forseta fyrir þá greinargóðu skýrslu sem forseti gaf hér áðan. En mér er eins og öllum eða a.m.k. flestum verulega brugðið. Það er engan veginn hægt að afgreiða þetta mál eins og storm í vatnsglasi eins og sagt var hér fyrr í dag eða af þeirri léttúð sem hæstv. utanríkisráðherra kom að málinu. Ég vil því þakka hæstv. forseta fyrir nálgun hennar eina og sér.

Ég vil einnig í kjölfar yfirlýsingar forseta spyrja forseta að því, því að það skiptir líka máli hvort forseti hafi fyrst upplýst yfirmann stjórnsýslunnar, sem er forsætisráðherra, hvort hæstv. forsætisráðherra hafi þá talað við og upplýst dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á lögreglunni. Ég held að það skipti miklu máli að dómsmálaráðherra hafi verið upplýstur um þetta fyrst yfirmanni stjórnsýslunnar var gert viðvart um málið af hálfu forseta.

Ég vil líka vegna orða sumra þingmanna undirstrika að þó að mistök hafi verið gerð — og mistök hafa verið gerð varðandi það að upplýsa ekki um málið, að halda leynd yfir því — er málið engu að síður að mínu mati komið í réttan farveg. Ég vil taka fram að ég treysti forseta til þess, eins og forseti stóð sig m.a. hér í þinginu fyrir jólin, að fylgja eftir athugasemdum, fylgja eftir ábendingum og vangaveltum þingmanna úr þingheimi og fylgja því eftir gagnvart lögreglunni. Að forseti okkar standi vörð um þingið því að eins og kom fram áðan var gerð innrás inn í þingið, þetta er nútímavæðing á hlerunartækjum inn á skrifstofur þingmanna, það er ekki um annað að ræða. Ég treysti forseta, í ljósi þeirra upplýsinga sem forseti setti fram áðan, til að fylgja málinu eftir fyrir þingheim allan nú og um lengri tíma.