139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:22]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Okkur Íslendingum er tamt að telja allt sauðmeinlaust sem í kringum okkur er og komum af fjöllum þegar eitthvað annað kemur upp. Það er svo sem ekkert undarlegt því að það er lenska hjá okkur Íslendingum að vera á þann hátt og ugglaust erum við þess vegna á Íslandi. En hér er um grafalvarlegt mál að ræða og ég vil þakka forseta fyrir þá skýrslu hennar og hvetja til þess að málinu verði fylgt enn frekar eftir. Vitað er að hér á landi voru um það leyti sem tölvan fannst heimsfrægir tölvuþrjótar og þess vegna þarf að kanna hjá þingmönnum, til að mynda í þeirri byggingu sem tölvan var í hvort þar hafi verið einhverjar óvæntar eða eftirtektarverðar mannaferðir. Það er eðlileg skylda að menn upplýsi það hvort þarna sé eitthvað sem kemur á óvart. Það er ekki verið að ásaka neinn með því en það er ekki hægt annað en ganga til verka á þeim nótum til þess að reyna að ljúka eins og hægt er rannsókn þessa máls. Það hefur komið fram hér í þingsal í dag að ljóst sé að ekki hafi verið komist inn í tölvukerfi Alþingis. Það er ekkert ljóst, það er bara ekkert ljóst nema þingmenn viti nákvæmlega hvernig þessi tölva var sett upp og hvaða möguleika hún hafði til að eyða sér og koma saklaus út úr sukkinu. Þetta er spurning sem er enn þá ósvarað og verður kannski aldrei svarað (Forseti hringir.) en ekki er hægt að staðhæfa að þetta hafi verið með þessum hætti.