139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þá yfirlýsingu sem hún gaf um ferli þessa máls og ég tek það fram að ég tel að málið sé nú í réttum farvegi. Ég tel jafnframt að málið hefði átt að fara í þann farveg í febrúar 2010. Það er alveg ljóst að við þurfum að huga að öryggismálum hér. Rætt hefur verið um aðgang að húsnæðinu Austurstræti 8–10. Það er þannig að inn í það húsnæði fer enginn nema með því að nota það aðgangskort sem þingmenn hafa og aðrir starfsmenn á því sviði eða að tala við vaktmann til að hleypa sér inn. Það átti við áður en millihurðin var sett upp. Þeir sem eru í Austurstræti 8–10 eru því þingmenn, starfsmenn þingsins og þeir sem þingmenn bjóða í það hús hvort heldur er til nefndarfunda á nefndasviði eða í þingflokksherbergjum sínum eða á þeim skrifstofum eða fundarsölum sem í húsinu eru. Aðrir komast ekki þarna inn. Það er alveg ljóst, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að inn í þetta hús fer enginn nema í gegnum einhvern annan, aðgangskortið eða að tala við vaktmann. Þannig er það, þannig hefur það verið og því þarf að skoða það. Þess vegna þarf að fara fram rannsókn á þessu máli aftur. Við sitjum ekki uppi með það að einhver hafi sagt einhverjum eitthvað eða einhver hafi gert eitthvað, það þarf að fara ofan í saumana (Forseti hringir.) á þessu máli aftur, endurtaka lögreglurannsóknina og bregðast við í ljósi þess sem þá kemur út.